Innlent

Milljón Sýrlendingar svelta

Sameinuðu þjóðirnar segja hungur mikið vandamál í Sýrlandi.
Sameinuðu þjóðirnar segja hungur mikið vandamál í Sýrlandi. fréttablaðið/ap
Ein milljón Sýrlendinga er við hungurmörk og hjálparvana eftir 22 mánaða borgarastyrjöld í landinu. Þetta er mat Sameinuðu þjóðanna.

Matvælaáætlun SÞ er ætlað að aðstoða eina og hálfa milljón Sýrlendinga en linnulausar skærur í landinu hafa hins vegar valdið því að stofnunin getur ekki komið mat til fjölda fólks. Þannig hefur ekki verið hægt að koma birgðum í í gegnum höfnina í borginni Tartus.

SÞ telja að um sextíu þúsund manns hafi fallið frá því að uppreisnin hófst í mars 2011.

Á undanförnum mánuðum hafa uppreisnarmenn lagt undir sig stór svæði í norðanverðu landinu. Eldfimt ástandið hefur orðið þess valdandi að Matvælaáætlunin hefur þurft að kalla starfsfólk sitt burt frá Homs, Aleppo, Tartus og Qamishly.

Við það bætist að árásum á flutningabíla samtakanna fjölgaði mjög á síðari hluta ársins 2012. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×