Innlent

Bjó í gömlu björgunarskipi frá Íslandi

Sigurvin Stein Kjetil Fredriksen bjó í skipinu sem áður var björgunarskipið Sigurvin á Siglufirði.
Sigurvin Stein Kjetil Fredriksen bjó í skipinu sem áður var björgunarskipið Sigurvin á Siglufirði. Mynd/Hilmar Snorrason
Norðmaðurinn sem féll í skotbardaga við dönsku lögregluna á sunnudagskvöld, Stein Kjetil Fredriksen, var búsettur í gömlu íslensku björgunarskipi, Sigurvin. Skipið hafði hann gert upp og geymdi í skerjagarðinum við Arendal.

Sigurvin er um 18 metrar á lengd og var smíðaður í Þýskalandi á sjöunda áratugnum. Slysavarnarfélagið fékk skipið árið 1997, að sögn Hilmars Snorrasonar, skólastjóra Slysavarnarskólans.

Sigurvin var staðsettur á Siglufirði allt til ársins 2006 og reyndist afar vel, að sögn Hilmars. Eftir að Slysavarnarfélagið seldi Sigurvin lá hann mikið við bryggju í Reykjavík þangað til hann var seldur til Noregs árið 2009.

Dagbladet í Noregi hefur eftir vini Fredriksens að skipið hafi verið illa farið þegar hann keypti það á sínum tíma, en Fredriksen hafi gert það upp með myndarbrag.

Fredriksen, sem var 49 ára gamall, var lengi bendlaður við sitthvað misjafnt en aldrei í líkingu við það sem upp komst um helgina, er hann reyndi við þriðja mann að smygla 250 kílóum af hassi frá Ålbæk í Norður-Jótlandi.

Smyglararnir reyndu að komast undan á hraðbátnum sem notaður var til verknaðarins. Sérsveitarmaður stökk um borð í bátinn en særðist í skotárás frá Fredriksen. Lögregla svaraði skothríðinni og hitti hann fjórum skotum í brjóst og höfuð svo hann lést samstundis. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×