Innlent

Kópavogsbær vill kanna möguleikann á frjálsum hugbúnaði

Ómar Stefánsson vill kanna nýjar leiðir í tölvumálum.
Ómar Stefánsson vill kanna nýjar leiðir í tölvumálum.
Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Kópavogi, hefur óskað eftir því að forstöðumaður upplýsingatæknideildar bæjarins mæti til næsta fundar, sem verður haldinn á morgun, og ræði um notkun opins hugbúnaðar og möguleikans á því að koma upp slíkum búnaði í tölvum bæjarins.

„Ég vil skoða þetta, enda löngu tímabært að gera það," segir Ómar en þegar rætt er um opinn hugbúnað er átt við hugbúnað sem er ekki frá tölvurisanum Microsoft, eins og fjölmargar stofnanir og bæjarfélög notast við. Sumir kalla slíkt einfaldlega frjálsan hugbúnað.

Þessi athugun Ómars kemur í kjölfar vitundarvakningar sem virðist vera víða, en meðal annars kom Richard Stallman hingað til lands í nóvember og rædd við Egil Helgason um frjálsan hugbúnað, en sá er einn ötullasti baráttu maður þess í heiminum. Þá hefur stjórnmálaaflið Pirateparty barist fyrir slíkum málum í þeim löndum sem hann bíður fram í. Þess má geta að Píratar er íslenski angi þeirra stjórnmálastefnu.

Ómar segir í samtali við Vísi að það sé ekkert ákveðið með að koma upp opnum hugbúnaði, það verði fyrst að reikna út hagkvæmni þess, „og þá kemur kannski í ljós að það borgar sig ekki að fara í slíkar aðgerðir," segir Ómar.

Spurður hvað hafi orðið til þess að hann vildi athuga þessa leið í tölvumálum, svarar Ómar því til að bróðir hans og frændi séu miklir talsmenn frjáls hugbúnaðar. „Og hver veit nema að þetta borgi sig að lokum," segir hann að lokum.

Forstöðumaður upplýsingatæknideildar mun mæta á fund bæjarstjórnar á morgun og fara yfir málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×