Innlent

Nauðgunin ekki framin af hópi manna

GRV skrifar
Maðurinn var við Hörpu þegar nauðgunin var tilkynnt.
Maðurinn var við Hörpu þegar nauðgunin var tilkynnt.
Nú þykir ljóst að nauðgun sem tilkynnt var um helgina var ekki framin af hópi manna eins og fyrstu fréttir hermdu. Lögregla telur þó ekki útilokað að annar aðili hafi staðið hjá og horft á árásina án þess að aðhafast.

Skýrslutökur yfir ungum karlmanni sem var nauðgað um síðustu helgi hafa leitt í ljós að gerandinn í málinu var aðeins einn, en ekki fleiri eins og maðurinn greindi lögreglu frá í upphafi. Málið hefur vakið mikla athygli en fórnarlambið gaf sig fram við lögreglu í grennd við Hörpuna í miðbæ Reykjavíkur og sagði að sér hefði verið nauðgað af hópi manna. Hann lagði síðan fram kæru vegna málsins og fór í skýrslutöku í gær. Björgvin Björgvinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir að þar hafi komið í ljós að gerandinn hafi verið einn. Hinsvegar segir Björgvin ekki útilokað að einhver annar hafi staðið hjá án þess að hafa tekið þátt í árásinni.

Björgvin segir málið enn mjög óljóst, lögregla sé að safna saman myndum úr öryggismyndavélum úr miðbænum. Það flækir málið að maðurinn var mjög illa á sig kominn þegar hann gaf sig fram við lögreglu og gat ekki upplýst um hvar brotið átti sér stað. Skýrslutökur yfir honum í gær leiddu það heldur ekki í ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×