Innlent

Of Monsters and Men fær EBBA verðlaunin

EBBA verðlaunin 2013 (European Border Breakers Awards) verða afhent með pomp og pragt á Eurosonic Noorderslag hátíðinni í kvöld, einum af hápunktum tónlistariðnaðarins í Evrópu. Íslenska hljómsveitin Of Monsters and Men er ein þeirra heppnu hljómsveita sem hljóta þessi eftirsóttu verðlaun í ár, en þau eru afhent tíu nýliðum á tónlistarmarkaði sem hafa vakið athygli og náð árangri út fyrir sinn heimamarkað.

Of Monsters and Men eru ekki í slæmum félagsskap, en meðal fyrri verðlaunahafa eru Adele, Mumford and Sons, Lykke Li, The Fratellis, Katie Melua og Íslandsvinurinn Damien Rice.

EBBA verðlaununum er ætlað að örva dreifingu tónlistar þvert á landamæri og að vekja athygli á hinni miklu fjölbreytni innan evrópskrar tónlistarmenningar. Verðlaunin eru fjármögnuð af Menningaráætlun ESB, framkvæmdastjórn ESB, og Samtökum evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU).

Hægt er að horfa á verðlaunaafhendinguna hér fyrir ofan í beinni útsendingu. Útsendingin byrjar klukkan 17 en einnig er hægt að horfa á heimasíðu hátíðarinnar. Kynnir hátíðarinnar er Jools Holland. Á síðunni er einnig hægt að horfa á kynningarmyndbönd um hljómsveitirnar tíu. Hér fyrir neðan er myndbandið um Of Monsters and Men.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×