Innlent

Drýgir tekjurnar á spúandi Drottningu

Eggert segir ekki nægilega mikið að gera til að hann hafi lifibrauð af snjómokstrinum, en hann hafi gaman af honum.
Eggert segir ekki nægilega mikið að gera til að hann hafi lifibrauð af snjómokstrinum, en hann hafi gaman af honum.
„Grafan var til hérna í nágrenninu en var ógangfær og allt fast í henni. Við fengum hana fyrir slikk en það fór mikill peningur og vinna í að taka hana í gegn," segir Eggert Sigurður Kristjánsson, 27 ára Hólmvíkingur, sem tók upp á því ásamt pabba sínum, að taka í gegn gamla gröfu og búa til snjómokstursvél.

Vélin, sem er af gerðinni Fiat Allis, er frá upphafi áttunda áratugar síðustu aldar og komst aftur á götuna í desember síðastliðnum. „Við nefndum hana Drottninguna. Sumir vildu að hún fengi nafnið Kyoto því hún reykti svo mikið, en ég benti þeim á að það geri Margrét Danadrottning líka. Nafnið var því samþykkt."

Eggert segir ekki nægilega mikið að gera í mokstrinum svo hafa megi af því lifibrauð. Það sé dagamunur á því hversu mikið sé að gera. Þeir feðgar eru sjálfstætt starfandi verktakar með alls kyns vélar, og hafa meðal annars unnið fyrir Hólmavíkurhrepp auk þess að sinna verkefnum fyrir fyrirtæki og einstaklinga.

Í frítíma sínum hefur Eggert meðal annars unnið á sumarbústaðajörðum þar sem hann lagar til landslagið með traktorsgröfu. Auk þess þykir honum gaman að gera við snjósleða og hefur verið duglegur í því, enda snjósleðasportið í miklu uppáhaldi. Eggert er félagi í snjósleðaklúbbnum Strandatröllin, en hann segist vera algjörlega sleðasjúkur og nota öll tækifæri til að fara á snjósleða.

Faðir Eggerts, Kristján Guðmundsson, hefur lengi verið í vélabransanum og á fyrirtækið Strandfrakt ehf., auk þess sem hann vinnur hjá flutningafyrirtæki. Eggert hefur því verið alinn upp í vélabransanum og hefur mikinn áhuga á flestu sem tengist vélum. Hann er nýfluttur aftur heim frá Noregi þar sem hann vann á jarðýtu og gröfu. „Það mætti eiginlega segja að ég væri vélkynhneigður," segir Eggert.

tinnaros@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×