Skoðun

Allir með Strætó?

Drengur Óla Þorsteinsson skrifar
Ég þakka forsvarsmanni Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, Þorvarði Hjaltasyni, hlý orð í minn garð í frétt RÚV 1. ágúst. Þó svo ég sinni starfi mínu hjá Bílum og fólki ehf. eftir bestu getu þá get ég ekki tekið heiðurinn af því að rekstur sveitarfélaganna á áætlunarbílum eftir þjóðvegum landsins gangi ekki sem skyldi. Vissulega stöndum við í markaðssetningu, en kostnaður fyrirtækisins við hana er ekki mikið meiri en dagsvelta Strætó bs. (samkvæmt fundargerð Borgarráðs). Ekki er okkar markaðssetning heldur miðuð að því að tæla almenning úr bílum Strætó yfir í okkar eigin. Við stundum ferðaþjónustu og okkar helsta vara eru svokallaðir hringmiðar. Við förum til dæmis með hringmiðafarþega inn á atvinnusvæði útsvarsgreiðenda á Suðurlandi.

Sem dæmi um hringmiða má nefna Full Circle Passport, en með honum geta ferðamenn farið í langferðabíla Sterna (og samstarfsaðila) hringinn í kringum landið, eftir þjóðvegi eitt, með eins mörgum eða fáum stoppum og neytandinn vill. Olíugjaldið sem við greiðum gengur upp í háan kostnað sem hlýst af viðhaldi vegakerfisins en stórir bílar, svo sem strætisvagnar Strætó bs. slíta yfirborði veganna hraðar en venjulegir fólksbílar. Fyrirtækið er, auk þess að greiða olíugjald, ólíkt Strætó bs., með hópferðaleyfi. Sé það ekki nóg þá erum við einnig með ferðaskipuleggjendaleyfi. Við erum sem sagt í fullum rétti í okkar markaðssetningu og höfum öll tilskilin leyfi til okkar aksturs, auk þess sem við leggjum sérstaklega til í samneysluna með olíugjaldinu.

Hvers vegna hafa áætlanir Strætó í farþegaflutningum ekki gengið eftir? Kannski voru þetta ekki nægilega góðar áætlanir. Á hvaða reynslu byggði Strætó? Sennilega hefðu ráðleggingar frá Bílum og fólki ehf. verið auðsóttar enda höfum við ávallt verið miklir áhugamenn um almenningssamgöngur og fyrirtækið stendur í og hefur staðið í áætlunarakstri um árabil auk þess sem innan fyrirtækisins starfar hópur karla og kvenna sem mörg hver hafa áratuga reynslu af rekstri sem þeim er Samband sunnlenskra sveitarfélaga telur útsvarstekjum sínum best borgið í að sinna.

Mínar ráðleggingar eru fyrst og fremst þessar; a) miðið áætlanir við þarfir farþeganna, ekki við þarfir fyrirtækisins, b) hafið áætlanatöflur aðgengilegar og læsilegar, bæði á stoppistöðvum og á heimasíðunni, c) starfsfólk þarf að tileinka sér þjónustuviðmót og hjálpa viðskiptavinum í hvívetna eftir bestu getu, d) stundið samkeppni þar sem hana er að finna en ekki ímyndaða líkt og Strætó telur sig verða fyrir af okkar hálfu í Landeyjahöfn. Við keyrum ekki þangað nema með erlenda dagsferðafarþega í samstarfi við ferðaþjónustuaðila í Eyjum. Samkeppnin er hins vegar við önnur samgönguform.

Rangt er einnig að við leggjum fyrr af stað en Strætó. Við förum ekki á fætur fyrr en um klukkan sjö á morgnana og missum af Strætó fyrir vikið, líkt og ég ímynda mér að sé raunin með marga mögulega viðskiptavini.




Skoðun

Sjá meira


×