Innlent

Þrýst á Össur um formannsframboð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra. mynd/ gva.
Þrýst hefur verið á Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og þingmann Samfylkingarinnar að bjóða sig fram til formanns flokksins á landsfundi hans. Eins og kunnugt er ákvað Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, á dögunum að draga sig í hlé þegar kemur að næsta landsfundi og hætta svo á þingi í næstu kosningum.

Samkvæmt upplýsingum Vísis eru það stuðningsmenn Össurar frá því að hann barðist um formannsembættið við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem eru fremstir í flokki þeirra sem þrýsta á Össur um formannsframboð núna. Þegar að þeim formannskosningum kom hafði Össur gegnt embætti formanns Samfylkingarinnar í fimm ár.

Össur segist ekki ætla að bjóða sig fram til formanns á nýjan leik. „Ég hef margoft sagt að ég hef hvorki vilja né áhuga á því að gegna því embætti aftur. Ég hef gert það, í fimm ár, var fyrsti formaðurinn og náði Samfylkingunni upp í 32% í sveitastjórnarkosningum og 32% í þingkosningum og hefði sjálfsagt getað tekið það svolíitð hærra ef það hefði ekki verið óþægilegur þvælingur á því framboði. En í öllu falli var það glæsileg niðurstaða og það væri stílbrot fyrir mig að koma aftur," segir Össur.

Blaðamaður: Ertu með skoðun á því hver ætti að taka við?

Össur: Já

Blaðamaður: Viltu deila því með lesendum Vísis?

Össur: Nei

Össur er hins vegar hvergi nærri hættur í stjórnmálum og ætlar að gefa kost á sér í fyrsta sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík. „Ég geri það í krafti þeirrar trúar að Samfylkingunni sé þörf á reynslumiklum þungavigtarmanni til að koma ESB ferlinu sem lengst. Það er hlutverk mittt og ef þeir hafa einhvern betri í það þá kjósa þeir hann.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×