Erlent

Hóta árásum á Bandaríkin

Bandaríski fáninn brenndur í mótmælum í Medan í Indónesíu í gær. Fjöldi múslíma kom saman fyrir utan ræðismannsskrifstofu Bandaríkjanna í borginni.
Bandaríski fáninn brenndur í mótmælum í Medan í Indónesíu í gær. Fjöldi múslíma kom saman fyrir utan ræðismannsskrifstofu Bandaríkjanna í borginni. fréttablaðið/ap

Al-Kaída fagnar dauða sendiherra Bandaríkjanna í Líbíu og kallar eftir fleiri mótmælum vegna myndar um Múhameð spámann. Þá hóta samtökin fleiri árásum, en tólf létu lífið í sjálfsmorðsárás í gær.



Alls er talið að hið minnsta 22 hafi látist í tengslum við mótmæli gegn kvikmynd um Múhameð spámann.



Al-Kaída í Norður-Afríku kallaði í gær eftir árásum á bandaríska embættismenn og enn fleiri mótmælum. Í tilkynningu var dauði Christophers Stevens, sendiherra Bandaríkjanna í Líbíu, lofsamaður. Þá hótuðu hryðjuverkasamtökin árásum í Alsír, Túnis, Marokkó og Máritaníu og sögðu Bandaríkjamenn hafa logið því í tíu ár að þeir háðu stríð gegn hryðjuverkum, þegar stríðinu væri í raun beint gegn íslamstrú.



Tólf dóu í sjálfsmorðsárás í Kabúl í Afganistan, þegar 22 ára gömul kona ók bíl fullum af sprengiefnum á litla rútu. Íslamskur öfgahópur hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni og segir hana hafa verið hefnd fyrir myndina umdeildu, Sakleysi múslima. Tíu manns höfðu þegar látist í mótmælum víða um heim.



Í Pakistan komu hundruð manna saman við skrifstofur bandaríska ræðismannsins í Peshawar. Lögregla var kölluð til og að sögn hennar kom til átaka með þeim afleiðingum að bæði mótmælendur og lögreglumenn særðust. Í Kasmír-héraði var fyrirtækjum lokað og almenningssamgöngur stöðvuðust vegna mótmæla þar sem fáni Bandaríkjanna var brenndur. Lögregla beitti táragasi og kylfum á mótmælendur.



Í Indónesíu var kveikt í hjólbörðum og bandaríska fánanum fyrir utan ræðismannsskrifstofur í borginni Medan. Hundrað stúdentar komu einnig saman í borginni Makassar og kröfðust þess að kvikmyndagerðarmaðurinn Nakoula Basseley Nakoula yrði líflátinn.



Mótmæli áttu sér einnig stað fyrir utan bandaríska sendiráðið í Bangkok í Taílandi. Einnig mótmæltu um 500 Palestínumenn í austurhluta Jerúsalem og um 200 fóru að ísraelskri eftirlitsstöð.



Búið er að loka fyrir aðgang að kvikmyndinni í Líbíu, Egyptalandi, Indónesíu og Indlandi.



thorunn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×