Innlent

Gagnrýnir málþing harðlega

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Valgerður Bjarnadóttir.
Valgerður Bjarnadóttir.
Valgerður Bjarnadóttir formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, gagnrýnir harðlega málþing um gerð nýrrar stjórnarskrár sem fram fór í gær. Hún segir ótrúlegt hvernig fræðimenn við Háskóla Íslands hafi leyft sér að snúa út úr í málinu.

Á málþinginu kom fram hörð gagnrýni frá prófessorum á borð við Gunnar Helga Kristinsson stjórnmálafræðing og Björgu Thorarenssen við lagadeildinni sem töldu að betra hefði verið að fara hægar í sakirnar og hafa meiri umræðu í þjóðfélaginu áður en farið hefði verið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þá hafi spurningarnar í þjóðaratkvæðagreiðslunni verið of almennt orðaðar og sagði Gunnar Helgi að þjóðaratkvæðagreiðslan hafi verið til þess fallin að þagga niður í gagnrýnisröddum í málinu.

„Mér fannst þetta nú mjög skrýtið þetta og kannski ekki mjög fræðilegt ef ég má komast þannig að orði," segir Valgerður Bjarnadóttir formaður stjórnskipunar - og eftirlitsnefndar. Hún segir auðheyrt að prófessorarnir hafi allt á hornum sér hvað varðar vinnuna við stjórnarskrárbreytingarnar.

„Mér finnst ekki mjög fræðilegt að segja að það sé verið að reyna að þagga niður í fólki þegar við berum þessar spurningar. Við erum að vanda okkur eins mikið og við getum. Prófessorar við Háskóla Íslands ættu að gera það líka," segir hún.

Nefnd sérfræðinga sem hefur haft það verkefni með höndum að gera tillögu að nýju frumvarpi byggðu á tillögum stjórnlagaráðs og niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar mun skila af sér á mánudaginn kemur. Valgerður segir að betur hefði farið á því hjá háskólamönnunum að bíða með gagnrýni uns frumvarpið komi komi fram.

„Eins og þú heyrir á mér þá er mér mikið niðri fyrir og mér finnst háskóli Íslands hafa pínulítið brugðist mér," segir Valgerður sem bendir á að frumvarpið eigi síðan eftir að fá ítarlega umræðu í þinginu og að lokum þurfi tvö þing að til að samþykkja breytingarnar.

„Að fræðimenn leyfi sér að snúa út úr því finnst mér ótrúlegt," segir Valgerður að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×