Innlent

Taka sex milljarða úr vasa launagreiðenda

Tryggingagjald var hækkað til að bregðast við auknu atvinnuleysi, enda stendur það undir kostnaði við Atvinnuleysistryggingasjóð.
Fréttablaðið/Anton
Tryggingagjald var hækkað til að bregðast við auknu atvinnuleysi, enda stendur það undir kostnaði við Atvinnuleysistryggingasjóð. Fréttablaðið/Anton
Stjórnvöld brjóta samkomulag sem gert var við undirritun kjarasamninga með því að lækka tryggingagjald aðeins um 0,1 prósentustig um áramótin að mati Samtaka atvinnulífsins (SA).

Með því að lækka gjaldið minna en efni standa til eru stjórnvöld að skattleggja íslensk fyrirtæki um sex milljarða króna aukalega á komandi ári, segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA.

„Stjórnvöld ákváðu að þau þyrftu ekki að efna það sem um var talað og að þau gætu notað tryggingagjaldið til að standa undir auknum útgjöldum ríkisins,“ segir Vilhjálmur.

Tryggingagjaldið rennur í Atvinnuleysistryggingasjóð, og var hækkað til að standa straum af kostnaði við aukið atvinnuleysi eftir hrunið. Vilhjálmur segir atvinnurekendur hafa haft skilning á því að gjaldið hafi þurft að hækka, en það hafi verið gert með þeim formerkjum að það myndi lækka þegar aftur færi að draga úr atvinnuleysi.

SA reiknuðu með 0,75 prósentustiga lækkun á tryggingagjaldinu um áramótin. Lækkunin átti að standa undir umsaminni 3,25 prósenta launahækkun í byrjun febrúar. Vilhjálmur segir alveg ljóst að launahækkun umfram getu launagreiðenda muni hækka verðbólgu í landinu. Þá muni fyrirtækin hafa minna svigrúm til að ráða nýja starfsmenn. Tryggingagjald að meðtöldu markaðsgjaldi og gjaldi í Ábyrgðasjóð launa verður 7,69 prósent á næsta ári, en er 7,79 prósent á árinu sem nú er að líða.

Ekki náðist í Katrínu Júlíusdóttur fjármálaráðherra við vinnslu fréttarinnar. - bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×