Innlent

Sjóður safnar milljónatugum

Jöfnunarsjóður sem jafnar meðal annars kostnað við að veita talsímaþjónustu um land allt, er rekinn með ágóða og hafa safnast í hann tugir milljóna á tólf árum.
Jöfnunarsjóður sem jafnar meðal annars kostnað við að veita talsímaþjónustu um land allt, er rekinn með ágóða og hafa safnast í hann tugir milljóna á tólf árum.
Á þeim tólf árum sem Jöfnunarsjóður alþjónustu hefur verið starfræktur hafa safnast í hann 75 milljónir króna í gjöld frá fjarskiptafyrirtækjum umfram arð sem sjóðurinn hefur úthlutað. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar.

Öll fjarskiptafyrirtæki greiða í sjóðinn sem nemur 0,1 prósenti af veltu, en úr honum er veitt til að jafna kostnað vegna alþjónustukvaða. Með alþjónustu er átt við þjónustu sem skal standa landsmönnum til boða óháð búsetu. Til dæmis felst í því almenn talsímaþjónusta, gagnaflutningsþjónusta, aðgangur að símaskrá og fleira. Þau fyrirtæki sem veita alþjónustu í fjarskiptaþjónustu, Síminn, Já, Míla og Neyðarlínan, geta svo sótt um framlag úr sjóðnum til að standa straum af kostnaði við alþjónustu.

Hingað til hafa fyrirtæki greitt tæpar 573 milljónir króna í sjóðinn, og auk þess lagði ríkið honum til tíu milljónir. Úthlutanir hafa hins vegar numið tæpum 498 milljónum og safnast því fjármunir í sjóðinn.

Póst- og fjarskiptastofnun segir það ekki hlutverk sjóðsins að mynda inneign með þessum hætti, en leggur þó ekki til að gjald í sjóðinn verði lækkað, þar eð enn hafi ekki verið gert upp dómsmál milli sjóðsins og Símans og á meðan sé staða hans ekki að fullu skýr.

- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×