Innlent

Aðeins raunverulegt flokksfólk fái að kjósa

Ekkert Samfylkingarfélag gerði kröfu um að félagar hefðu greitt félagsgjöld til að fá að kjósa formann árið 2009. fréttablaðið/daníel
Ekkert Samfylkingarfélag gerði kröfu um að félagar hefðu greitt félagsgjöld til að fá að kjósa formann árið 2009. fréttablaðið/daníel
Um áramótin tekur gildi lagabreyting hjá Samfylkingarfélaginu í Reykjavík (SFFR) um að aðeins þeir sem greitt hafa félagsgjald verði fullgildir félagar. Þeir sem ekki greiða félagsgjöldin fyrir áramót fá því ekki að kjósa um formann Samfylkingarinnar í janúar.

„Okkur finnst að það eigi að vera fólk sem er sannarlega Samfylkingarfólk sem hefur áhrif á hverjir eru fulltrúar okkar á þingi og í sveitarstjórnum, að ég tali nú ekki um hver er formaður flokksins,“ segir Anna María Jónsdóttir, formaður Samfylkingarfélagsins.

Lagabreyting þess efnis var samþykkt á aðalfundi félagsins fyrir tveimur árum, en SFFR er eina Samfylkingarfélagið sem hefur þennan háttinn á.

Kjartan Valgarðsson var formaður félagsins þegar breytingin var samþykkt. „Það var og er skoðun meirihluta þeirra sem eru í Samfylkingarfélaginu í Reykjavík að það eigi að fara saman réttindi og skyldur að þessu leyti, eins og í öðrum frjálsum félagasamtökum á Íslandi.“

Anna María tekur undir þetta. „Við erum að setja fordæmi með því að gera greinarmun á stuðningsmönnum og fullgildum félögum. Flestum finnst það sjálfsagt að skyldur fylgi réttindum og það kostar að halda úti stóru félagi.“

Hún segir að félögum hafi verið ljóst lengi að breytingin væri væntanleg. Alltaf hafi staðið til að gefa nýju lögunum aðlögunartíma og taka þau í gildi um áramótin. Þess vegna hafi reglurnar ekki gilt í prófkjöri flokksins í nóvember og ef formannskjörið hefði farið fram fyrir áramót hefðu reglurnar ekki verið komnar í gildi.

Anna segir aðeins þrjár kvartanir hafa borist vegna málsins og sex sagt sig úr félaginu, sem sé eðlilegt. Þá segir hún ákvörðunina ekki snúast um gjald til flokksins vegna landsfundarfulltrúa; greitt verði samkvæmt félagaskránni 1. janúar 2012.

kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×