Innlent

Facebook-lokanir á Nesinu og Reykjanesi

Lokað hefur verið fyrir Facebook hjá starfsmönnum bæjarfélaganna í nokkur ár, en nú standa yfir viðræður um hvort kominn sé tími til að endurskoða bannið. Nordicphotos/getty
Lokað hefur verið fyrir Facebook hjá starfsmönnum bæjarfélaganna í nokkur ár, en nú standa yfir viðræður um hvort kominn sé tími til að endurskoða bannið. Nordicphotos/getty
Reykjanesbær og Seltjarnarnesbær eru meðal þeirra bæjarfélaga sem hafa lokað fyrir Facebook á tölvum bæjarstarfsmanna. Ekki hefur verið opið inn á síðuna í nokkur ár í bæjunum tveimur.

Guðrún Þorsteinsdóttir, starfsþróunarstjóri hjá Reykjanesbæ, segir aðganginum hafa verið lokað að beiðni stjórnenda í stofnunum innan bæjarins, meðal annars vegna kostnaðar við niðurhal.

„Þá var þessi ákvörðun tekin, en það eru gerðar undantekningar,“ segir hún. „Ég get ekki svarað fyrir það hvort þetta hafi tekið mikinn tíma frá starfsmönnum, en stjórnendur fögnuðu því þegar þessu var lokað, enda óskuðu þeir sjálfir eftir því.“

Guðrún segir að alltaf sé verið að ræða hvort opna eigi fyrir Facebook-aðgang að nýju, en engar ákvarðanir hafi verið teknar.

Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar, segir að lokað hafi verið alla hennar bæjarstjórnartíð og fyrir þann tíma. „Það hefur alltaf verið mín stefna að hafa lokað fyrir Facebook, Myspace og Youtube,“ segir Ásgerður. „Til að opna fyrir það þarf bæjarstjórn að fara yfir málið, móta stefnu og setja sérstakar reglur og viðmið.“

Nú vilja skólastjórar og fræðslustjórar innan bæjarins opna aðgang fyrir nemendur og kennara grunnskóla. Að sögn Ásgerðar eru fræðslustjórar nú að safna upplýsingum um málið til að kynna fyrir bæjarstjórn.

„Starfsmenn hafa aldrei verið með þetta opið. Síðan hafa skoðanir og tölfræði sýnt það að fólk er að eyða mismiklum tíma í þetta,“ segir hún.

Bæði Seltjarnarnesbær og Reykjanesbær eru með skráðar Facebook-síður, en ekki hefur verið mikil virkni hjá þeim fyrrnefnda undanfarin misseri. Undantekningar eru gerðar fyrir starfsmenn Reykjanesbæjar sem sjá um síðuna.

sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×