Innlent

Mega ekki krefjast sannana á pappír

olikr@frettabladid.is skrifar
Bauhaus Í ákvörðun Neytendastofu er Bauhaus sagt brjóta lög um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, sem og reglur um útsölur.Fréttablaðið/GVA
Bauhaus Í ákvörðun Neytendastofu er Bauhaus sagt brjóta lög um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, sem og reglur um útsölur.Fréttablaðið/GVA
Auglýsingar byggingavöruverslunarinnar Bauhaus um „bestu verðin í landinu“ og „besta verðið í Reykjavík“ brjóta í bága við lög um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Þá eru ólöglegar kvaðir sem Bauhaus leggur á neytendur sem vilja nýta sér „verðvernd“ fyrirtækisins.

Þetta kemur fram í nýrri, en óbirtri, ákvörðun Neytendastofu. Ákvörðunin, dagsett 12. desember, er sögð taka gildi við birtingu og verður Bauhaus þá bannað að fullyrða um besta verð. Jafnframt verður fyrirtækinu „bannað að leggja þá skilyrðislausu og íþyngjandi kröfu“ á fólk sem vilja nýta sér verðvernd verslunarinnar að það leggi fram skriflega staðfestingu á pappír fyrir lægra verði keppinautar.

Neytendastofa segir að seljandi sem bjóði viðskiptavinum sínum verðvernd eigi sjálfur að gæta þess að verð hans sé það lægsta. „Neytendastofa telur þá kvöð Bauhaus að neytandinn þurfi í öllum tilfellum að leggja fram skriflega staðfestingu, á pappír, fyrir verði keppinautar, vera afar íþyngjandi og í andstöðu við ákvæði 10. greinar reglu númer 366/2008 [um útsölur og aðra sölu þar sem selt er á lækkuðu verði]. Auk þess telur Neytendastofa skilyrðið fela í sér óréttmæta viðskiptahætti sem líklegir eru til að raska verulega fjárhagslegri hegðun neytenda […] enda líkur á að neytendur ákveði að eiga viðskipti við Bauhaus í ljósi verðverndar en nýti sér ekki verðvernd vegna þeirra íþyngjandi kvaða sem gerðar eru til sönnunar á verði keppinauta.“

Ákvörðunin kemur í kjölfar kvartana til Neytendastofu, annars vegar frá Húsasmiðjunni og hins vegar frá Ólafi Haukssyni.

Neytendastofa féllst hins vegar ekki á að banna ætti Bauhaus að takmarka verðverndina þannig að hún gilti ekki um vörur sem aðrir bjóða í takmörkuðu magni og í takmarkaðan tíma, opnunartilboð, sérpantanir eða vörur sem seldar eru í póst- eða í vefverslunum.

Bauhaus, Byko, Húsasmiðjan og Múrbúðin keppa hart á markaði byggingarvöru.Í sumar bannaði Neytendastofa Byko að birta fullyrðingar um „lægsta verðið“ í sínum verslunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×