Innlent

Tíminn verður notaður í frekara samráð

Mikið álag hefur verið á byggingarfulltrúa sveitarfélaga þar sem frestur til að fá undanþágu frá nýrri byggingarreglugerð átti að renna út um áramót. Fréttablaðið/anton
Mikið álag hefur verið á byggingarfulltrúa sveitarfélaga þar sem frestur til að fá undanþágu frá nýrri byggingarreglugerð átti að renna út um áramót. Fréttablaðið/anton
Umhverfisráðherra hefur framlengt frest til að sækja um undanþágu frá ákvæðum nýrrar byggingarreglugerðar. Fresturinn átti að renna út um áramót en nú verður hægt að fá undanþágu til 15. apríl næstkomandi.

Nýja byggingarreglugerðin tók gildi í febrúar síðastliðnum, og voru þar gerðar talsverðar breytingar á kröfum sem gerðar eru til húsbygginga. Ákvæði í reglugerðinni, sem hagsmunaaðilar segja að myndu hækka byggingarkostnað um nærri 10 prósent að jafnaði, hafa verið afar umdeild, eins og Fréttablaðið hefur greint frá.

Ný og uppfærð reglugerð hefur nú tekið gildi þar sem breytingar hafa verið gerðar til að koma til móts við óskir hagsmunaaðila meðal annars um einangrun og rýmisstærðir.

Markmiðið með því að framlengja frestinn til að fá undanþágu frá reglugerðinni er að gefa frekara ráðrúm til samráðs við hagsmunaaðila, að því er fram kemur í tilkynningu frá umhverfisráðuneytinu.

Mikið álag hefur verið á byggingarfulltrúa sveitarfélaganna undanfarið þar sem margir hafa sótt um að fá undanþágu áður en heimild til þess átti að falla úr gildi um áramót. - bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×