Innlent

Ný útlendingalög lögð fram á nýju ári

Halla Gunnarsdóttir kynnti skýrslu nefndar um málefni útlendinga í sumar ásamt Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra og Guðbjarti Hannessyni velferðarráðherra.
Halla Gunnarsdóttir kynnti skýrslu nefndar um málefni útlendinga í sumar ásamt Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra og Guðbjarti Hannessyni velferðarráðherra. fréttablaðið/ernir
Ný lög um málefni útlendinga verða ekki lögð fram í þinginu á þessu ári, eins og vonast hafði verið til. Vinna við frumvarpsgerð hefur tekið lengri tíma en gert var ráð fyrir en stefnt er að því að frumvarp að nýjum útlendingalögum verði lagt fram í ríkisstjórninni strax eftir áramót.

Áður hafði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagt að reynt yrði að leggja frumvarpið fram á haustþingi.

Starfshópur um málefni útlendinga utan Evrópska efnahagssvæðisins vann skýrslu fyrir innanríkisráðuneytið þar sem settar voru fram tillögur að breytingum á lögum. Skýrslan var kynnt í júní síðastliðnum, en hópurinn hafði þá starfað í tæpt ár. Ein tillagan var sú að ein heildarlög um málefni útlendinga yrðu sett, og tækju til dvalar- og atvinnuleyfa. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins verður ekki af þessari sameiningu laga í ein heildarlög nú.

Meðal annarra tillagna nefndarinnar voru að hætta ætti að refsa hælisleitendum fyrir að framvísa fölsuðum skilríkjum og koma á fót sjálfstæðri úrskurðarnefnd í málefnum hælisleitenda, eins og gert hefur verið í nágrannaríkjum Íslands.

- þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×