Innlent

Mandelatorg fær byr í borginni

Meðal annars er bent á Óðinsatorg sem reit fyrir Nelson Mandelatorg í Reykjavík.
Meðal annars er bent á Óðinsatorg sem reit fyrir Nelson Mandelatorg í Reykjavík. Fréttablaðið/Anton
Embætti skipulagsstjóra í Reykjavík leggur til að borgin taki jákvætt í ósk Arkitektur- og designhögskolen í Ósló og úthluti skólanum svæði til að útfæra torg tileinkað Nelson Mandela.

Eins og áður hefur komið fram í Fréttablaðinu ætlar norski arkitektaskólinn útskriftarnemum sínum það verkefni að hanna Mandelatorg í Reykjavík. Að því er segir í umsögn skipulagsfulltrúa getur skólinn á þessu stigi hvorki sagt til um hvernig verkefnið verði fjármagnað né hvernig torgið eigi að líta út – enda er hönnun torgsins einmitt markmið verkefnisins sjálfs. Norðmennirnir segjast þó munu kosta gerð torgsins en til þess að geta aflað fjár þurfi þeir fyrst að fá úthlutað reit í Reykjavík.

Í umsögn skipulagsfulltrúa eru settir fram þrír kostir fyrir Mandelatorgið; Vitatorg, Óðinstorg og Káratorg sem er við norðurenda Kárastígs. „Farið yrði með tillöguna eins og önnur skipulagsmál þar sem ráð borgarinnar geta haft áhrif á málið,“ segir skipulagsfulltrúi, sem tiltekur sérstaklega að ekkert annað Nelson Mandelatorg sé á Norðurlöndunum.

Skipulagsráð frestaði afgreiðslu málsins á fundi í gær. - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×