Innlent

Neysluskattar háir og óskilvirkir hér á landi

Haraldur I. Birgisson
Haraldur I. Birgisson
Tollar eru tæplega þrefalt hærri á Íslandi en í helstu nágrannalöndunum, þá eru neyslustýringaráhrif meiri og skilvirkni minni. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri úttekt Viðskiptaráðs. Framkvæmdastjórinn segir endurskoðunar þörf.

Tollar hér á landi eru tæplega þrefalt hærri en þeir eru að meðaltali á Norðurlöndunum og í Bretlandi. Þá eru neyslustýringaráhrif þeirra meiri hér og skilvirkni minni. Þetta er niðurstaða Viðskiptaráðs Íslands sem hefur gert úttekt á umhverfi tolla, vörugjalda og neysluskatta á Íslandi.

Úttektin ber yfirskriftina „Neysluskattar komnir á síðasta söludag“ og kemur út í dag. Haraldur I. Birgisson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, segir hana leiða í ljós að kerfi neysluskatta hér á landi sé flókið og óskilvirkt þrátt fyrir að skila hinu opinbera tiltölulega litlum tekjum.

„Niðurstaðan er því sú að þetta kerfi er óskilvirkt og þungt í vöfum. Það er ekki í takti við það sem gengur og gerist í nágrannalöndum okkar og það mismunar bæði atvinnuvegum og fólki eftir neysluhegðun. Þar að auki skapar það hindranir fyrir alþjóðaviðskipti,“ segir Haraldur og heldur áfram: „Við teljum því að það þurfi að endurskoða þetta kerfi frá grunni.“

Í úttektinni er fjallað um neysluskatta á Íslandi en þeim má skipta í þrennt; virðisaukaskatt, tolla og vöru- og þjónustugjöld og skatt á vörur sem valda ytri áhrifum. Ekki er hins vegar fjallað sérstaklega um síðasta flokkinn en dæmi um vörur sem valda ytri áhrifum eru áfengi, tóbak og eldsneyti.

Um hina flokkana er það að segja að Ísland er undir meðaltali OECD-ríkja þegar kemur að skilvirkni virðisaukaskattkerfisins. Þá eru tollar hérlendis hærri, mismuna í meiri mæli og eru þar að auki óskilvirkari en í nágrannaríkjunum.

Haraldur bendir á að í nágrannaríkjunum séu tollar og vörugjöld nær einungis lögð á vörutegundir sem valda samfélagslegum kostnaði og landbúnaðarvörur. Hérlendis séu slík gjöld hins vegar lögð á fjölmarga vöruflokka sem engin slík áhrif hafa, eins og byggingarefni, heimilistæki og raftæki.

Í skýrslunni er tekið dæmi af heimilis- og raftækjum sem oft bera 7,5% toll, 20 til 25% vörugjald og 25,5% virðisaukaskatt. Heildarskattlagning er því um 62% til 69%, svo há að skatttekjurnar eru minni en sá hagræni kostnaður sem hlýst af skattlagningunni.

Loks er í úttektinni varað við því að mismunað sé á milli neysluvara í virðisaukaskattkerfinu. Almennt sé betra að ná fram pólitískum markmiðum, til að mynda því að auka kaupmátt tekjulægri hópa, með beinum aðgerðum fremur en krókaleiðum.magnusl@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×