Innlent

Íslendingar borða níu milljón mandarínur um jól

Klementínur eru afbrigði af mandarínum og eru algengasta tegundin hér á landi.
Klementínur eru afbrigði af mandarínum og eru algengasta tegundin hér á landi.
Hver Íslendingur borðar að meðaltali á bilinu 25 til 30 mandarínur í kringum jólin, sem gerir um níu milljónir í allt.

Á tímabilinu frá lokum nóvember og fram til áramóta verða flutt um 800 tonn af mandarínum inn til landsins, sé miðað við tölur frá síðasta ári. Einn umsvifamesti innflytjandi mandarína hér á landi er heildsalan Bananar ehf. og segir framkvæmdastjórinn, Kjartan Már Friðsteinsson, ekki miklar breytingar vera á tölunum milli ára.

Flestar þær mandarínur sem Íslendingar leggja sér til munns í desember ár hvert koma frá Valencia á Spáni, en einnig frá Marokkó, Argentínu, Grikklandi, Ítalíu og fleiri suðrænum löndum.

Hefðin sem hefur skapast í kringum "jólamandarínurnar" tengist uppskerutíma ávaxtanna, sem er einmitt í nóvember og desember. Um tíu til fimmtán dagar líða frá því að mandarínurnar eru tíndar af trjánum á Spáni þar til þær eru komnar í verslanir á Íslandi.

Klementínur eru afbrigði af mandarínum og eru algengasta tegundin hér á landi. -sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×