Innlent

Vill efla Fornminjasjóð í næstu fjárlögum

Katrín Jakobsdóttir
Katrín Jakobsdóttir
Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, vill að Fornminjasjóður verði efldur í næstu fjárlögum. Ljóst sé að góðum umsóknum um styrki er varða fornleifarannsóknir hafi verið hafnað á undanförnum misserum og tiltölulega lágar fjárhæðir verið samþykktar samanborið við árin fyrir hrun.

„Það þarf að leggja áherslu á að efla sjóðinn með því að skoða stöðuna sérstaklega í næstu fjárlögum,“ segir Katrín. „Þá mætti meðal annars beita þeim rökum að [fornleifar] skipti máli fyrir ferðamennsku. Það á að horfa til þessarar uppbyggingar í framtíðinni.“

Fréttablaðið greindi frá því á föstudag að Fornleifafræðingafélag Íslands hefði þungar áhyggjur af stöðu fornleifarannsókna í landinu vegna sílækkandi fjárveitinga frá ríkinu sem sé aðallega til komið vegna breytts og víðara hlutverks Fornminjasjóðs.

Þá úthlutar fjárlaganefnd Alþingis ekki lengur fjármagni til fornleifarannsókna en Katrín segir að með þeirri breytingu hafi sjóðurinn verið stækkaður á móti.

„Hann er stækkaður um helming, en engu að síður munar verulegu um framlög fjárlaganefndar,“ segir hún. „Ég skil áhyggjur fornleifafræðinga og tek undir að það sé mikilvægt að byggja upp sjóðinn í skrefum án aðkomu hennar.“- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×