Innlent

Kona á níræðisaldri þungt haldin á spítala

SV skrifar
Kona á níræðisaldri varð fyrir strætisvagni og slasaðist alvarlega í Kópavogi í gærmorgun.
Fréttablaðið/Hari
Kona á níræðisaldri varð fyrir strætisvagni og slasaðist alvarlega í Kópavogi í gærmorgun. Fréttablaðið/Hari
Kona á níræðisaldri lá í gærkvöldi þungt haldin á gjörgæsludeild Landspítalans eftir að hafa orðið fyrir strætisvagni í Kópavogi um níuleytið í gærmorgun. Konan slasaðist mikið og hlaut töluverða áverka.

Franz Gunnarsson var farþegi í strætisvagninum þegar slysið varð. „Bílstjórinn snögghemlaði og við fundum högg þegar hann keyrði á konuna. Hann greinilega sá hana ekki, hún var klædd í dökk föt og það var dimmt,“ segir hann. „Ég hringdi á sjúkrabíl og hlúði að konunni þar til hún komst til meðvitundar og þeir mættu á staðinn, en það blæddi annaðhvort úr höfðinu á henni eða munni. Hún hefur fengið högg við að lenda á jörðinni.“

Að sögn Franz var bílstjóranum verulega brugðið, sem og öllum þeim fáu farþegum sem í vagninum voru. „Hann var ekki á mikilli ferð, en náði ekki að hemla alveg niður. Þetta hefði þó getað farið verr. Krökkunum í vagninum var verulega brugðið og ég reyndi að útskýra fyrir þeim hvað sjúkraflutningamennirnir voru að gera,“ segir hann. „Bílstjórinn var í miklu uppnámi. Maður heyrði ópin í honum áður en bíllinn skall á henni, þegar hann var að hemla sá hann í hvað stefndi.“ Konan var að ganga yfir götu við Engihjalla, en þar var ekki gangbraut. Að sögn Franz var mikil umferð á svæðinu og konan hefur greinilega ekki tekið eftir vagninum.

Ekki fengust upplýsingar um líðan konunnar í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×