Innlent

Óttast að fornleifarannsóknir gætu lagst af á næstu árum

Merkar fornminjar fundust í uppgreftri á Steinsstöðum í Tungusveit sumarið 2008, sem leiddu í ljós grafreit þar sem kristnir menn höfðu verið lagðir til hinstu hvílu. Engar ritaðar heimildir eru um kirkju þarna.
Merkar fornminjar fundust í uppgreftri á Steinsstöðum í Tungusveit sumarið 2008, sem leiddu í ljós grafreit þar sem kristnir menn höfðu verið lagðir til hinstu hvílu. Engar ritaðar heimildir eru um kirkju þarna.
Fornleifafræðingafélag Íslands (FFÍ) óttast að fornleifarannsóknir gætu lagst af á næstu árum verði lög um menningarminjar samþykkt um áramót. Ekki er gert ráð fyrir neinum framlögum til fornleifarannsókna í fjárlögum næsta árs og hafa styrkir til greinarinnar dregist saman um 60 prósent frá árinu 2008.

Hin nýju lög kveða á um að Fornminjasjóður skuli taka að sér mun víðara hlutverk en áður, eins og báta- og skipaviðgerðir, og verður vinna að stefnumótun í minjavörslu greidd úr honum að hluta. Þrátt fyrir það eru framlög minnkuð um 30 prósent á sama tíma.

Ármann Guðmundsson, formaður félagsins, segir framtíð greinarinnar hér á landi einkennast af mikilli óvissu vegna þessa.

„Sjóðurinn var eyrnamerktur þessari vísindagrein og tengdum rannsóknum, en nú getur stjórn sjóðsins ákveðið að dæla fjármagni í verkefni sem tengjast fornleifafræði í raun og veru ekki neitt,“ segir hann. „Óvissan er líka óþolandi. Það er ekkert komið til móts við okkur í þessari gríðarlegu útvíkkun á hlutverkasviði sjóðsins og það er ekki hægt að sætta sig við það.“

Ármann bendir á að frá árinu 2008 hafi mikið af jákvæðum áhrifum fornleifarannsókna á menningu og atvinnulífi komið í ljós, meðal annars með útgáfum og uppbyggingu nýrra ferðamannastaða.

„Menningartúrismi er í vexti hér á landi og fornleifarannsóknir eru partur af þeirri velgengni,“ segir hann. „Það skýtur skökku við að það eigi alltaf að dæla fólki inn í landið án þess að bjóða því upp á eitthvað.

Ég var að vinna á Alþingisreitnum í sumar og það var gott dæmi um hversu mikill áhugi ferðamanna er á fornleifum. Leiðsagnarleiðangrar þar voru fullir á hverjum degi.“

Í ályktun FFÍ segir að fornleifafræðingar séu uggandi yfir stöðunni þar sem sjóðurinn sé eini beini styrktarsjóður fornleifarannsókna hér á landi. Áframhaldandi niðurskurður muni takmarka atvinnumöguleika stéttarinnar enn frekar og með þessari breytingu séu forsendur til fornleifarannsókna á Íslandi brostnar.

sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×