Innlent

Gæti stefnt í óefni vegna uppsagnanna

Fundur á LSH Frá starfsmannafundi á Landspítalanum í fyrra þar sem ræddar voru niðurskurðar- og aðhaldsaðgerðir í rekstri spítalans. Fréttablaðið/GVA
Fundur á LSH Frá starfsmannafundi á Landspítalanum í fyrra þar sem ræddar voru niðurskurðar- og aðhaldsaðgerðir í rekstri spítalans. Fréttablaðið/GVA
Hópur sem kallar sig „aðgerðahóp hjúkrunarfræðinga“ segir í skeyti til fjölmiðla að 130 hjúkrunarfræðingar hið minnsta hafi nú sagt starfi sínu lausu á sjö deildum Landspítalans. Verði sú tala staðfest hefur meira en einn af hverjum tíu sagt upp, en á spítalanum starfa um 1.200 hjúkrunarfræðingar.

Björn Zoëga, forstjóri spítalans, segir að meta þurfi stöðuna vegna óánægju hjúkrunarfræðinga. „Það gæti alveg stefnt í óefni, en ekkert hægt að gefa sér um það fyrir fram.“ Verið er að taka saman tölur um uppsagnir hjúkrunarfræðinga á Landspítalanum. Björn segist gera ráð fyrir að þær verði birtar í dag eða á morgun.

Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, segist ekki vita hversu margir hjúkrunarfræðingar hafi sagt starfi sínu lausu. Að baki uppsögnum geti legið margvíslegar ástæður. Þannig hafi álag í starfi aukist mikið á sama tíma og gerðar hafi verið ýmsar skipulagsbreytingar í sparnaðarskyni á spítalanum. „Og fólk orðið langþreytt á þessu. Síðan þegar við birtum tölur um launahækkanir hjá öðrum opinberum starfsmönnum meðan starfsfólk heilbrigðisgeirans stendur í stað, þá kann það að hafa haft einhver áhrif.“ Sjálf segist hún hafa heyrt á skotspónum tölur um uppsagnir allt að 190 hjúkrunarfræðinga. „Svona miklar uppsagnir eru náttúrulega mjög alvarlegt mál.“

Aðgerðahópur hjúkrunarfræðinga hafði í gær boðað mótmæli á viðræðufundi sem halda átti síðdegis. Á laugardag segir Elsa hins vegar að hafi komið í ljós að ekki gæti komið til fundarins. Fundinn áttu að sitja forstjóri Landspítalans, heilbrigðisráðherra og fulltrúar hjúkrunarfræðinga. Annir ráðherrans hafi komið í veg fyrir að af honum gæti orðið, en hjúkrunarfræðingar telji mikilvægt að fá viðtal við bæði forstjóra og ráðherra í einu.

Björn Zoëga segir um tvær vikur síðan fulltrúar hjúkrunarfræðinga í samstarfsnefnd hjúkrunarfræðinga og spítalans báðu hann að sitja fundinn. „En ráðherra hefur bara ekki haft tíma,“ segir Björn. „Og ég veit ekki til þess að kominn sé nýr tími.“

olikr@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×