Innlent

Sérfræðingar vakta skólafæðið

GAR skrifar
Borgin vill tryggja betur gæði skólamáltíða.
Fréttablaðið/Anton
Borgin vill tryggja betur gæði skólamáltíða. Fréttablaðið/Anton
Leggja á aukna áherslu á gæði skólamáltíða í leik- og grunnskólum Reykjavíkur.

Áfram verður eldað í hverjum skóla en að því er segir í frétt frá Reykjavíkurborg verða ráðnir sérfræðingar á sviði næringar, matreiðslu og reksturs mötuneyta til nýrrar mötuneytisþjónustu á skóla- og frístundasviði. Einnig verður innleiddur þjónustustaðall mötuneyta fyrir öll eldhús leik- og grunnskóla.

Ofangreint samþykkti borgarráð að fengnum niðurstöðum starfshóps sem skoðaði rekstur allra mötuneyta borgarinnar með það fyrir augum að einfalda rekstur, auka gæði og lækka framleiðslukostnað.

Aðstaða til framleiðslu matar og mönnun reyndist mjög mismunandi í mötuneytunum. Þau eru rekin sem sjálfstæð rekstrareining með ólíkum áherslum og verklagi. „Slíkt skapar mismunandi þjónustugæði og flækjustig við eftirlit og innköllun rekstrarupplýsinga,“ segir í tilkynningu borgarinnar. Þess vegna hafi starfshópurinn lagt til að stofnuð yrði mötuneytisþjónusta Reykjavíkurborgar sem hefði umsjón með mötuneytismálum á skóla- og frístundasviði. Maturinn yrði eftir sem áður framreiddur á hverjum stað fyrir sig.

Í mötuneytum er í boði þjónusta fyrir 19.152 börn og unglinga og 4.405 starfsmenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×