Lífið

Stofnaði Félag misfætlinga vegna viðbragða

Stofnar samtök Ólöf Hugrún Valdimarsdóttir hefur fengið fjöldann allan af pósti frá fólki sem er með misstóra fætur. Fréttablaðið/Vilhelm
Stofnar samtök Ólöf Hugrún Valdimarsdóttir hefur fengið fjöldann allan af pósti frá fólki sem er með misstóra fætur. Fréttablaðið/Vilhelm
„Ég held að ég gæti verið búin að finna spegilmynd mína. Ég ætla samt ekki að gera mér of miklar vonir því ég á eftir að hitta hana," segir leikkonan Ólöf Hugrún Valdimarsdóttir sem opinberaði misstóra fætur sína í blaðinu í gær.

Hægri fótur Ólafar er í skóstærð 38 en sá vinstri er stærð 40. Munurinn hefur löngum valdið Ólöfu vandræðum, enda þarf hún yfirleitt að kaupa tvö pör af skóm. Því auglýsti hún eftir einhverjum sem glímdi við sama vandamál, nema öfugt, og gæti deilt með henni skókaupum. Í kjölfarið á fréttinni í gær hefur pósti rignt yfir Ólöfu þar sem fólk deilir með henni reynslu sinni af misstórum fótum sínum.

„Þetta hefur vakið mikla athygli og auðvitað skemmtun. Vinir mínir hafa gert mikið grín að mér og skammað mig fyrir að reka ofan í þá tærnar með morgunkaffinu," segir Ólöf, sem prýddi forsíðu Fréttablaðsins í gær.

Í kjölfarið á þessum góðu viðtökum stofnaði Ólöf Félag misfætlinga á Facebook í gær og þegar í stað skráðu fimm meðlimir sig í hópinn. „Geturðu ímyndað þér hversu skemmtilegir hittingar geta verið hjá félaginu, allir að bera saman fætur sínar í tíma og ótíma? Það besta er að ég held að ég sé búin að para tvo saman sem geta deilt skókaupum. Mér líður eins og sambandsmiðlara," segir Ólöf kát og viðurkennir að hún sé fegin að heyra að hún sé ekki ein með þetta vandamál.

„Ég er viss um að ég hef stuðlað að ákveðinni vakningu um misstóra fætur og ég bið misfætlinga um að hika ekki við að hafa samband." - áp


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.