Innlent

„Lífsnauðsynlegt fyrir okkur“

Forstjóri Landspítalans segir að undirbúningur fyrir tækjakaupin hafi hafist í gær. Fréttablaðið/gva
Forstjóri Landspítalans segir að undirbúningur fyrir tækjakaupin hafi hafist í gær. Fréttablaðið/gva
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í gærmorgun að veita Landspítalanum 600 milljónir til tækjakaupa á næsta ári til viðbótar við þær 262 sem spítalanum voru ætlaðar til þess á fjárlagafrumvarpi næsta árs. Spítalinn mun því geta keypt tæki fyrir 862 milljónir á næsta ári.

Það er meira en tvöfalt það sem hann fékk á þessu ári. Á fjárlögum ársins 2012 voru honum einnig skammtaðar 262 milljónir, en við bættust 150 milljónir á fjáraukalögum sem tilkynnt var um nýlega.

„Það er lífsnauðsynlegt fyrir okkur að fá þetta og er í samræmi við það sem við höfum sagt, að við þurfum milljarð á ári næstu þrjú ár til að koma okkur í horf,“ segir Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans. „Það er mikið fagnaðarefni að stjórnvöld hafi skilning á þessari þörf.“

Hann segir að þessara auknu fjárveitinga muni sjá stað í starfsemi spítalans hægt og bítandi allt næsta ár. „Það tekur tíma að kaupa inn tæki, fara með þetta í útboð og annað. Sú vinna hefst strax í dag.“ - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×