Innlent

Verð á matvöru nánast óbreytt

Salat- og grænmetisverð hækkaði mest milli kannana.Fréttablaðið/Vilhelm
Salat- og grænmetisverð hækkaði mest milli kannana.Fréttablaðið/Vilhelm
Við samanburð verðkönnunar ASÍ í matvöruverslunum föstudaginn 26. október og laugardaginn 27. október kemur í ljós að verð á þeirri matvöru sem verðlagseftirlitið skoðaði var nánast óbreytt. Hagkaup var eina matvöruverslunin þar sem engar verðbreytingar voru á milli fyrrgreindra daga, að því er segir í fréttatilkynningu frá ASÍ.

Af þeim matvörum sem skoðaðar voru hækkaði verðið mest á iceberg-salati, blómkáli, tómötum og agúrku hjá versluninni Nettó í Mjódd eða um 43 prósent milli daga. Aðrar vörur sem hækkuðu milli daga voru t.d. Myllu-hveitibrauð sem hækkaði um 12 prósent hjá Krónunni og Holta-kjúklingapylsur um 15 prósent hjá Nóatúni.

Mesta lækkunin á milli kannananna var á kartöflum í lausu eða um 30 prósent hjá Nettó. Bíó bú kókosjógúrt lækkaði um sex prósent hjá Nóatúni og jarðarberja Húsavíkurjógúrt lækkaði um átta prósent hjá Bónus.

Könnunin var gerð hjá Bónus Kringlunni, Krónunni Granda, Nettó Mjódd, Fjarðarkaupum Hafnarfirði, Iceland Engihjalla, Nóatúni Hringbraut og Hagkaupum Holtagörðum. Kostur, Samkaup Úrval og Víðir neituðu þátttöku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×