Innlent

Reyna greiningu á kúaveiru á Keldum

Á Egilsstaðabýlinu greindust 33 af 69 kúm með mótefni sem bendir til sýkingar, en dýrin hafa ekki sýnt nein sjúkdómseinkenni. fréttablaðið/stefán
Á Egilsstaðabýlinu greindust 33 af 69 kúm með mótefni sem bendir til sýkingar, en dýrin hafa ekki sýnt nein sjúkdómseinkenni. fréttablaðið/stefán
Sýni sem tekin voru á 40 kúabúum á Austurlandi vegna smitandi barkabólgu voru öll neikvæð að undanskildu endurteknu sýni á Egilsstaðabúinu, þar sem sýkingin greindist upphaflega, og úr einum grip á bænum Fljótsbakka sem einnig er á Fljótsdalshéraði. Gripurinn var gefinn frá Egilsstaðabúinu í febrúar. Eðli sýkingarinnar, eða stofn veirunnar, liggur ekki fyrir enn en á Tilraunastöð Háskóla Íslands á Keldum er unnið að því að rækta veiruna til greiningar.

Sýnatakan á öllum kúabúum á Austurlandi var gerð samkvæmt fyrirmælum frá Matvælastofnun en niðurstöður bárust á þriðjudag. Jafnframt bárust niðurstöður rannsókna á stroksýnum úr jákvæðum gripum á Egilsstaðabúinu, sem send voru til rannsóknar erlendis. Ekki tókst að einangra veiruna úr sýnunum, og því liggur eðli sýkingarinnar ekki fyrir nákvæmlega.

Á Tilraunastöð Háskóla Íslands á Keldum er verið að ganga frá sýnum frá öllum öðrum kúabúum á landinu og senda til rannsóknar í Svíþjóð, en Landssamband kúabænda hafði forgöngu um að öll bú hér á landi yrðu rannsökuð. Niðurstaðna þeirra rannsókna er að vænta í næstu viku.

Á Keldum er einnig verið að gera tilraun til að rækta veiruna til frekari greiningar. Þar sem sjúkdómurinn hefur ekki greinst áður á Íslandi er unnið að rannsóknunum í nýrri öryggisrannsóknastofu Tilraunastöðvarinnar.

Auður Lilja Arnþórsdóttir, sóttvarnadýralæknir á Matvælastofnun, segir að tilgangur allra þessara rannsókna sé að varpa skýrara ljósi á málið, en á grundvelli niðurstaðna þeirra verður tekin endanleg ákvörðun um aðgerðir. Hún segir að niðurstöður sýnatöku til þessa bendi eindregið til þess að sýkingin sé einangruð við Egilsstaðabúið, en dýrið sem greindist á Fljótsbakka byggi undir það. Eins að jákvætt sé að sýni úr mjólkurtanki á Fljótsbakka hafi verið neikvætt sem gefi von um að aðrir gripir á búinu séu ekki smitaðir. Blóðsýni verða hins vegar tekin af öllum gripum á Fljótsbakka til að ganga úr skugga um það.

Auður Lilja staðfestir að ákvörðun hefur verið tekin um að öllum jákvæðum gripum verður fargað á býlunum tveim og hræ nýtt við greiningu á sýkinni. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort öðrum gripum á Egilsstaðabýlinu verði fargað.

svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×