Innlent

Þak sett á innheimtukostnað

ögmundur jónasson
ögmundur jónasson
Reglugerð um þann kostnað sem lögmenn mega innheimta af skuldurum er nú til umsagnar hjá Lögmannafélagi Íslands. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði á Alþingi í gær að samkvæmt lögum yrði hlustað á sjónarmið félagsins, en ráðuneytið væri ekki skuldbundið til að fara eftir þeim.

„Ég held að það séu sameiginlegir hagsmunir allra, ekki síst lögmanna, að þetta sé í réttlátum farvegi og við stefnum að því að kynna Alþingi málið hið allra fyrsta.“

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði Ögmund út í málið í gær. Hann sagði brýnt að slík reglugerð yrði sett og mörg dæmi hefðu komið fyrir þingnefndir um að kostnaðarkröfur lögfræðinga væru óhóflegar.

„Satt að segja ævintýralegar á köflum, þar sem kröfuupphæðin sjálf er orðin algjört aukaatriði en kostnaðurinn við lögfræðiinnheimtuna er orðinn marg-, marg-, margfaldur á við kröfuna.“- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×