Lífið

Hundraðkall til að klappa kettinum Bjarti

Bjartur er heimilisköttur og andlit Kattholts.
Bjartur er heimilisköttur og andlit Kattholts. Mynd/Vilhelm
"Ég man ekki nákvæmlega hvenær hann kom. Ætli það hafi ekki verið í kringum 2004, fljótlega eftir að Emil, gamli heimiliskötturinn, dó. Sigríður Heiðberg var formaður Kattavinafélagsins þá og hún var svo hrifin af Bjarti að hún gerði hann að næsta heimilisketti. Hann hefur verið hér síðan og er mjög hress miðað við aldur," segir Petrún Sigurðardóttir, starfsmaður Kattholts, um heimilisköttinn Bjart, sem fagnaði fjórtán ára afmæli á fimmtudag og verður viðstaddur sýningu kynjakatta í dag þar sem hann safnar fé til styrktar Kattholti.

Petrún lýsir Bjarti sem skemmtilegum og ljúfum ketti. Starfsfólk Kattholts kallar hann gjarnan "Skrifstofustjórann" því hann eyðir stórum hluta dags á skrifstofu athvarfsins. "Þegar dyrabjöllunni er hringt er hann sá fyrsti til að heilsa upp á fólk. Hann stjórnar skrifstofunni og er gjarn á að leggjast ofan á lyklaborðið þegar hann vill athygli. Þegar við erum ekki á staðnum umgegnst hann aðallega hótelgestina okkar."

Bjartur verður viðstaddur kynjakattasýninguna í dag og á morgun. Þar mun hann safna fé fyrir Kattholt, sem hefur átt í töluverðum fjárhagsörðugleikum undanfarna mánuði.

"Hann verður þarna frá 10 til 17 og ætlar að safna peningum fyrir athvarfið með því að fá fólk til að borga 100 krónur fyrir að fá að klappa honum. Þetta ár hefur verið okkur sérstaklega erfitt og hingað koma margir ógeldir og ómerktir kettir. Það gengur betur að finna heimili fyrir kettlinga en eldri ketti. Við höfum reynt að brýna fyrir fólki að gelda dýrin svo hægt sé að koma í veg fyrir þessa miklu fjölgun," segir Petrún að lokum. –sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.