Innlent

Bílasala að taka við sér aftur

Egill Jóhannsson
Egill Jóhannsson
Alls seldust 514 nýir bílar í september, en það jafngildir 65% aukningu í sölu miðað við sama mánuð í fyrra. Á fyrstu níu mánuðum ársins hafa 6.757 nýir bílar verið seldir hér á landi en í fyrra voru þeir 5.431 á sama tímabili.

Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, segir sitt fyrirtæki hafa fundið vel fyrir söluaukningunni. ?Það er alveg greinilegt að kaupmáttur fólks er heldur að aukast þótt við séum enn þá vel fyrir neðan eðlilega sölu í sögulegu samhengi,? segir Egill.

Þá telur Egill þörf fyrir nýja bíla hafa safnast upp á síðustu árum þar sem margir hafi frestað stórkaupum fyrst um sinn eftir bankahrunið. "Það er engin spurning að það er uppsöfnuð þörf eftir nýjum bílum. Það voru seldir mjög margir nýir bílar á árunum 2005 til 2007 og þeir bílar eru nú orðnir fimm til sjö ára. Það er algengt að fólk skipti um bíl á þriggja ára fresti þannig að margir eru væntanlega komnir með tvöfalt eldri bíla en þeir myndu vilja. Þá er fólk líka farið að upplifa meiri viðgerðarkostnað og því líklegra til að endurnýja," segir Egill.

Loks segir Egill að nýir bílar í dag séu mun sparneytnari en þeir bílar sem voru seldir á árunum 2005 til 2007. Með því að endurnýja núna geti margir þess vegna minnkað eldsneytiskostnað sinn talsvert.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×