Erlent

Kostuðu nærri tuttugu lífið

Mótmælandi í Rawalpindi dregur logandi hjólbarða úti á götu.
Mótmælandi í Rawalpindi dregur logandi hjólbarða úti á götu. nordicphotos/AFP
Að minnsta kosti sautján létu lífið og tugir særðust þegar til átaka kom í Pakistan milli mótmælenda og lögreglu.

Mótmælendurnir mættu þúsundum saman út á götur margra helstu borga landsins til að lýsa andúð sinni á bandarísku myndbandi um Múhameð spámann. Margir þeirra köstuðu grjóti og kveiktu í húsum, en lögreglan brást sums staðar við með því að skjóta á fólkið og nota táragas.

Mest varð mannfallið í borginni Karachi, þar sem að minnsta kosti tólf manns létu lífið.

Efnt var til sams konar mótmæla í nokkrum öðrum löndum, þar á meðal Afganistan, Indónesíu, Írak og í Þýskalandi, þar sem nokkur hundruð manns söfnuðust saman í Freiburg til að mótmæla myndbandinu.



Mótmælin gegn þessu myndbandi og ofbeldi í tengslum við þau hafa alls kostað nærri fimmtíu manns lífið þessa ellefu daga, sem liðnir eru frá því að hlutar úr því voru settir inn á Youtube í arabískri þýðingu. Bandaríkin hafa varið sjötíu þúsund dölum í sjónvarpsauglýsingar, sem sýndar hafa verið í Pakistan, þar sem bandarískir ráðamenn sjást fordæma myndbandið.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×