Erlent

Földu barnið í bílskúrnum

Leitað var á heimili foreldra drengsins vegna gruns um annað lögbrot.
Leitað var á heimili foreldra drengsins vegna gruns um annað lögbrot. nordicphotos/AFP
Fjögurra ára drengur fannst illa haldinn í bílskúr foreldra sinna. Alla ævi hafði hann varla komist út undir bert loft og kunni ekki einu sinni að leika sér.

Foreldrar fjögurra ára gamals drengs eiga yfir höfði sér allt að tveggja ára fangelsi fyrir vanrækslu. Þau höfðu falið barnið fyrir umheiminum frá fæðingu, að mestu án þess að fara með það út fyrir hússins dyr og án samskipta við annað fólk, með þeim afleiðingum að drengurinn er fölur og vöðvarýr, kann ekki að leika sér og varla að tala almennilega.

Lögreglan fann drenginni í bílskúr fjölskyldunnar í Helsingjaeyri í ágúst og færði hann strax í umsjón annarra. Ekki er raunar fullvíst að drengurinn sé fjögurra ára, því hvergi eru til nein skjöl um fæðingu hans. Aldurinn hafa sérfræðingar metið meðal annars út frá sverleika beina hans.

Sex eldri börn foreldranna, þrír drengir og þrjár stúlkur, voru tekin frá þeim vegna vanrækslu fyrir tæpum áratug. Foreldrarnir hafa árum saman barist gegn þeirri ákvörðun og hafa komið oft fram í dönskum fjölmiðlum til að gagnrýna barnaverndaryfirvöld. Heimildarmynd var gerð um mál þeirra árið 2003.

„Barninu hefur verið haldið innandyra allt sitt líf,“ er haft eftir Bjarne Pedersen, bæjarritara á Helsingjaeyri, á fréttasíðum danska ríkisútvarpsins. „Það virðist hafa verið lítill, lokaður garður sem hann fékk leyfi til að fara út í, en foreldrarnir vildu ekki tala við okkur svo við fengum ekki að vita meira.“

Samkvæmt lögreglunni virðist barnið ekki hafa orðið fyrir líkamlegu tjóni, en Pedersen segir augljóst að hann þurfi á mikilli aðstoð að halda: „Ég er kominn út að mörkum þess sem ég má segja, en reynið að ímynda ykkur barn sem hefur ekki lært að leika sér – það hefur líka eitthvað með tal barnsins að gera.“

Ástæða þess að drengurinn fannst nú var að lögregla gerði húsleit á heimili fjölskyldunnar vegna annars máls, þar sem þau eru grunuð um lögbrot. Þau eiga einnig yfir höfði sér málaferli vegna þess máls.

Fyrir tveimur árum hafði nágranni hjónanna haft samband við yfirvöld og tilkynnt að hann teldi barn vera á heimilinu. Því máli var ekki fylgt eftir, en svo virðist sem þá hefði verið hægt að koma drengnum til hjálpar.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×