Skoðun

Hagsmunir Kína

Róbert T. Árnason skrifar
Kínverjar eru meðal elstu og sérstæðustu menningarþjóða heims og hafa átt einkennilegri feril en þær flestar. Það sem fjölmennasta ríki heims og veldið Kína gerir á næstu árum hefur geysimikla þýðingu. Ýmsar áleitnar spurningar heimsins velta á því hvað kínverskir ráðamenn gera innan landamæra alþýðulýðveldisins eins og sakir standa. Og hvað kínverskir ráðamenn kunna með tíð og tíma að gera utan landamæra Kína. Stóísk þolinmæði sem hjálpar kínverskum almúga til að þola ólýsanlegar raunir mun verða enn nauðsynlegri á næstu árum þegar kínverskir ráðamenn leggja inn á nýjar brautir erfiðleika og umskipta með eflingu fjandskapar við nágranna Kína í leit að meira valdi og yfirráðum.

Fræðimaðurinn Sjún Tzjé leggur ráðamönnum alþýðulýðveldisins Kína þessa einu meginreglu: Þekkið mótherjana í hundrað orrustum. Þekkið sjálfa ykkur í hundrað sigrum. Tilgátan hér er sú að það freisti æ meir úrræðalausra kínverskra ráðamanna að finna þörf til að kveikja stríðsbál og beina þannig hugum kínversks almúga frá óleysanlegum innanlandsvandamálum og að Kína muni ráðast gegn einu eða fleiri nágrannaríkjum. Allt umhverfis þetta víðáttumikla land munu athafnir Kína hafa mikil áhrif á alls konar þjóðir og fólk.

Ísland kann að flækjast inn í slíkt stríðsbál en það bál annaðhvort eyðir herafla þeirra nágrannaríkja sem ráðist verður á eða stríðsbálið bindur enda á yfirráð kommúnista í Kína. Í báðum tilfellum verður meiri háttar styrjöld í Asíu. Þeir sem ráðnir eru sem smjaðrarar alþýðulýðveldisins Kína á Íslandi eiga væntanlega aldrei að hugsa um annað en hag þess og eiga aldrei að helga sig neinu öðru en hollustu við alþýðulýðveldið jafnvel þó að þeir hafi sem íslenskir námsmenn daðrað við alþjóðahyggju Maó á háskólaárunum í Peking. Það skiptir ekki litlu máli fyrir framgang hagsmuna alþýðulýðveldisins Kína á Íslandi hvernig tekst til með val á íslensku smjöðrurunum því það er komið undir skarpskyggni kínverskra ráðamanna hve nýtir þeir verða alþýðulýðveldinu á Íslandi.




Skoðun

Sjá meira


×