Innlent

„Það er verðstríð alla daga“

Jóhannes Jónsson er afar ánægður með að verslun hans, Iceland, hafi mælst ódýrust í nýjustu verðkönnun ASÍ.
Jóhannes Jónsson er afar ánægður með að verslun hans, Iceland, hafi mælst ódýrust í nýjustu verðkönnun ASÍ. Fréttablaðið/Vilhelm
„Við erum bara í sjöunda himni,“ segir Jóhannes Jónsson, eigandi matvöruverslanakeðjunnar Iceland. „Þetta er alveg æðisgengið.“

Iceland mældist oftast með lægsta verðið í nýjustu verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ. Er þetta í fyrsta sinn sem verslunin tekur þátt í könnuninni, enda var hún einungis opnuð fyrir nokkrum vikum hér á landi. ASÍ kannaði matvöruverð í átta lágvöruverðsverslunum og stórmörkuðum á þriðjudag.

Jóhannes segist hafa haft ákveðinn grun um að Iceland myndi mælast með lægsta verðið, en verslanir Bónuss, sem Jóhannes stofnaði og átti um árabil, hafa oftast verið ódýrastar samkvæmt könnunum ASÍ. Af þeim 96 vörutegundum sem skoðaðar voru, var Iceland með lægsta verðið á 45 tegundum en Bónus kom þar á eftir með lægsta verðið á 24 tegundum. Samkaup-Úrval var oftast með hæsta verðið, en þar á eftir kom Nóatún. Kostur og Víðir neituðu að taka þátt í könnuninni.

Aðspurður hvort það stefni nú í verðstríð á lágvöruverðsmarkaðnum svarar Jóhannes: „Það er náttúrlega verðstríð alla daga. En það er fljótt að étast upp ef maður er með þrjátíu búðir. Það þarf meira til,“ segir hann. „Ég tel mig vera kominn á þá braut sem ég ætla mér.“

Hann stefnir á að opna fleiri Iceland-verslanir hér á landi, en segir þó ekkert liggja á. „Ég sé ekki betur, eins og móttökurnar hafa verið, en að það sé réttlætanlegt að þenja sig eitthvað út.“

„Svo árum skiptir hefur munstrið verið það að Bónus er ódýrastur og Krónan kemur rétt á eftir,“ segir Snorri Már Skúlason, deildarstjóri upplýsinga- og kynningarmála ASÍ. „Iceland er með lægsta verðið í meira en helmingi tilfella og það er staða sem Bónus hefur ekki lent í ansi lengi.“

Lengi vel var verðstefna Bónuss sú að vera lægstur og svara öllum tilraunum keppinauta til að bjóða hagstæðara verð. Með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í desember 2008 voru Hagar, móðurfélag Bónuss, hins vegar sektaðir um 315 milljónir króna fyrir undirverðlagningu í verðstríði við Krónuna.

Samkeppniseftirlitið mat það þá svo að með undirverðlagningunni hefðu Hagar „í raun fest í sessi það orðspor sitt að engum keppinautum muni líðast til frambúðar að bjóða neytendum vörur á lægra verði en boðið er í verslunum Bónuss.“ Var sektinni ætlað að koma í veg fyrir slíkt í framtíðinni.

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir náðist ekki í gær í Guðmund Marteinsson, framkvæmdastjóra Bónuss, eða Finn Árnason, forstjóra Haga, til að svara því hvort Bónus hygðist lækka verð til að mæta samkeppni Iceland.sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×