Skoðun

Mannslífum bjargað í Sómalíu

Þórir Guðmundsson skrifar

Í fyrrasumar gaf almenningur á Íslandi af miklum rausnarskap um 57 milljónir króna í söfnun Rauða krossins vegna hræðilegrar hungursneyðar í Sómalíu. Nú, ári síðar, er rétt að gefa skýrslu um árangur af starfi Rauða krossins, sem er umtalsverður.

Hjálp kom víðs vegar að úr heiminum. Alls dreifði Alþjóða Rauði krossinn matvælum til tveggja milljóna manna í Sómalíu og margvíslegum hjálpargögnum til einnar milljónar manna í Kenýa og hálfrar milljónar í Eþíópíu.

Þó að mest áhersla hafi verið lögð á lífsbjargandi neyðaraðstoð þá var einnig veitt hjálp til uppbyggingar. Borað var eftir vatni, bændum hjálpað við að koma sér upp áveitum, hirðingjum gefin húsdýr, moskítónetum dreift og heilsugæslustöðvar efldar.

Eingöngu fyrir það fé sem íslenskur almenningur gaf í gegnum Rauða krossinn á Íslandi náðum við til um 50 þúsund berskjaldaðra skjólstæðinga. Við byrjuðum á að senda 770 þúsund pakka af vítamínbættu hnetusmjöri til 20 þúsund barna, sem þjáðust af alvarlegum næringarskorti í sunnanverðri Sómalíu. Síðar sendum við skjólefni, hreinlætispakka og eldunaráhöld til aðstoðar um 30 þúsund flóttamönnum norðar í landinu.

Sem betur fer voru rigningarnar í fyrrahaust með besta móti og uppskeran í janúar og febrúar var góð. Margir sjálfsþurftarbændur eiga samt erfitt með að ná sér á strik og enn er Rauði krossinn að dreifa matvælum í Sómalíu, þó í minna magni sé en í fyrra.

Rauði krossinn á Íslandi hefur heldur ekki sagt skilið við Sómalíu. Á undanförnum mánuðum höfum við aðstoðað félaga okkar í Sómalíu við að styðja munaðarlaus börn á tveimur stöðum í landinu. Og nú er verið að koma á laggirnar sjúkrastöð á hjólum, sem þjónar hirðingjum norðarlega í landinu. Læknar og hjúkrunarfræðingar á stórum fjórhjóladrifnum bíl munu veita hirðingjum heilbrigðisþjónustu og meðal annars fylgjast með næringarástandi barna og gefa þeim mat sem illa eru haldin. Þetta verður hægt að gera þökk sé stuðningi frá Íslandi.

Í fyrra tókst að minnka verulega skaðann af hrikalegri hungursneyð. Í framtíðinni aukast lífsgæði hirðingja og lífslíkur barna þeirra fyrir aðstoð Rauða krossins á Íslandi. Íslenskur almenningur, sem styður þetta starf, getur verið stoltur af árangrinum.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×