Skoðun

Mismunun starfsmanna sendiráða á Íslandi

Guðlaug Kristjánsdóttir skrifar
Íslenskir starfsmenn erlendra sendiráða á Íslandi búa við mismunun þegar kemur að réttindum í atvinnuleysi og fæðingarorlofi. Þessi mismunun kemur til vegna þess að samkvæmt íslenskum lögum greiða erlend sendiráð ekki tryggingargjald til íslenska ríkisins. Starfsmennirnir bera sjálfir ábyrgð á að standa skil á tryggingargjaldi af launum sínum, ef þeir vilja á annað borð njóta þeirra réttinda sem því fylgja. Einhver erlend sendiráð hafa tekið tillit til þessa við ákvörðun launa en alls ekki öll. Sumir starfsmenn í þessum sporum fá því hærri laun sem kostnaðinum nemur en aðrir bera hann sjálfir.

Til samanburðar njóta íslenskir starfsmenn hjá íslenskum sendiráðum erlendis fullra réttinda og vinnuveitandi þeirra stendur skil á greiðslum tryggingargjalds. Erlendir starfsmenn í sendiráðum hérlendis eru að sama skapi tryggðir í heimalandi sínu og er staða þeirra mun skýrari en Íslendinga sem vinna með þeim.

Ekki er um það mörgum orðum að fara, að þetta er skýr mismunun gagnvart íslenskum þegnum, sem vegna þess eins að þeir vinna hjá erlendu sendiráði á Íslandi, taka á sig 7-10% skerðingu á launum (eftir upphæð tryggingargjaldsins á hverjum tíma) eða verða af réttindum sem á tryggingargjaldi byggja.

Brýn þörf er á því að íslensk yfirvöld taki á þessum vanda svo komið sé í veg fyrir þessa mismunun. Athygli stjórnvalda hefur áður verið vakin á þessu máli en engar úrbætur verið gerðar. BHM krefst þess að stjórnvöld leiðrétti þessa mismunun sem stafar af íslenskum lögum og gefi íslenskum starfsmönnum erlendra sendiráða möguleika á að njóta sömu kjara og annað launafólk í landinu.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×