Erlent

Landamærum Egypta að Gasa lokað

Egypskir hermenn fylgdu landamæravörðunum sextán til grafar í Kaíró, höfuðborg Egyptalands.
fréttablaðið/ap
Egypskir hermenn fylgdu landamæravörðunum sextán til grafar í Kaíró, höfuðborg Egyptalands. fréttablaðið/ap
Mohammed Morsi, forseti Egyptalands, hefur rekið yfirmann egypsku leyniþjónustunnar og ríkisstjóra Sínaí-hérðas í kjölfar mannskæðustu árásar skæruliða á egypskt herlið um helgina. Samskipti nýrrar ríkisstjórnar Egyptalands og Hamas-stjórnarinnar á Gasa-svæðinu hafa versnað eftir að Egyptar lokuðu landamærum að Gasa. Morsi er hliðhollur hinu svæðisbundna Bræðralagi múslima rétt eins og Hamas-samtökin.

Sextán egypskir hermenn féllu við landamærastöð á Sínaí-skaga nærri Gasa-svæðinu þegar íslamskir skæruliðar gerðu á þá árás. Talið er að skæruliðarnir séu frá Sínaí-skaga, hafi laus tengsl við al-Qaida og hafi fengið hjálp af Gasa-svæðinu. Hamas-stjórnin hefur lofað að hjálpa Egyptum með rannsókn málsins en neita því að nokkur íbúi Gasa-svæðisins tengist málinu á nokkurn hátt.

Verð á bygginarhráefni er í hæstu hæðum vegna lokun landamæranna og hundruðir sjúklinga eru strandaglópar á Gasa og fá ekki nauðsynlega læknisaðstoð. Ísraelar hamla umferð um öll önnur landamæri að Gasa.

Egypskur sendiherra gagnvart Palestínumönnum á Vesturbakkanum sagði í gær að landamærin yrðu lokuð þar til öryggi hefði verið tryggt á ný.

Íbúar Gasa-svæðisins eru 1,7 milljón manns. Síðan Hamas náði þar völdum árið 2007 hafa Egyptar og Ísraelar haldið strangt landamæraeftirlit. Palestínskur hagfræðingur segir lokun landamæranna mega vera í tíu daga áður en verkamenn missi vinnuna vegna hráefnisskorts.- bþh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×