Erlent

Norska stúlkan enn ófundin

Stúlkan er 16 ára og býr í úthverfi Óslóar. Hún er um 170 sentimetra há, skolhærð og með blá augu. Hennar er enn saknað.
Stúlkan er 16 ára og býr í úthverfi Óslóar. Hún er um 170 sentimetra há, skolhærð og með blá augu. Hennar er enn saknað.
Norska stúlkan, Sigrid Giskegjerde Schjetne, sem leitað hefur verið að í Ósló síðan á aðfaranótt sunnudags er enn ófundin.

Í gær hélt norska lögreglan blaðamannafund og lýsti því yfir að nú væri litið á hvarf Sigrid sem sakamál. Á fundinum var einnig lýst eftir tveimur drengjum og manni sem sást í bíl við leikskóla sem hundar röktu spor stúlkunnar að. Drengirnir hafa gefið sig fram en bílsins og bílstjórans er enn leitað.

Hátt í 700 sjálfboðaliðar leituðu að Sigrid í gær. Einnig var leitað úr þyrlum án árangurs en engin ný ummerki hafa fundist sem talin eru tengjast málinu. Búist er við fleiri leitarhópum í dag. Enn er vonast til að stúlkan sé á lífi.

Sigrid, sem er sextán ára, hvarf um miðnætti á laugardagskvöldið þegar hún rölti heim til sín frá vinkonu sinni. Spor stúlkunnar voru rakin að leikskóla í grennd við heimili stúlkunnar, en þar fundust skórnir hennar, sokkar og farsími.

Talið er líklegt að hún hafi verið numin á brott í bíl, þar sem spor hennar enda snögglega við leikskólann. Leitin stendur enn yfir.

- ktg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×