Erlent

Skotmaður líklega tengdur hvítum öfgamönnum

Árásarmaðurinn var fertugur fyrrverandi hermaður að nafni Wade Michael Page. Talið er að hann hafi haft tengsl við samtök öfgahægrimanna.
nordicphotos/afp
Árásarmaðurinn var fertugur fyrrverandi hermaður að nafni Wade Michael Page. Talið er að hann hafi haft tengsl við samtök öfgahægrimanna. nordicphotos/afp
Svo virðist sem maðurinn sem myrti 6 og særði 4 í skotárás í Wisconsin í Bandaríkjunum á sunnudag hafi verið tengdur hreyfingu hægri öfgamanna. CNN hefur eftir upplýsingum frá lögreglunni að Wade Michael Page gæti hafa verið tengdur samtökum sem berjast fyrir yfirburðum hvíta kynstofnsins.

Page var 40 ára gamall og fyrrum hermaður. Hann hóf skothríð á musteri síka á sunnudagsmorgun með fyrrgreindum afleiðingum. Hann skaut meðal annars á lögreglumann, en féll fyrir kúlum lögreglunnar.

CNN hefur eftir John Edwards, lögreglustjóra í Oak Creek, að eftir eigi að staðfesta tengsl Page við samtök hvítra öfgamanna. Theresa Carlson, fulltrúi hjá alríkislögreglunni FBI, segir að tilefni árásarinnar sé enn óljóst. Verið sé að rannsaka hvort um hryðjuverk sé að ræða. ?Við erum að rannsaka tengsl við rasistahópa,? sagði hún og bætti við að Page hefði ekki verið til athugunar fyrir árásina.

Síkar hafa orðið fyrir fjölmörgum árásum í Bandaríkjunum eftir að hryðjuverkaárásin var gerð á New York 11. september 2001, þrátt fyrir að engin tengsl séu á milli þeirra og árásarmannanna.

Samkvæmt lista sem lögreglan dreifði eftir árásina hafa á milli 39 til 84 síkar verið myrtir síðan árásirnar voru gerðar. - kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×