Skoðun

Afætur eða falinn fjársjóður?

Guðjón Sigurðsson skrifar
Í Reykjavík síðdegis í símatíma um daginn var öryrki sem skammaðist út í íþróttafélög sem ekki hleyptu honum frítt inn á kappleiki og svo kom annar sem kallaði öryrkjann frekju á sínu framfæri.

Báðir þessir aðilar eru öfgamenn í málefnum okkar öryrkja bara hvor á sínum endanum og eru hvorki öryrkjum til framdráttar né Íslandi yfir höfuð.

Barátta MND félagsins hefur snúið að því að aðstoðarmenn okkar fengju frítt inn á viðburði. Ef við hefðum ekki aðstoð kæmumst við ekkert og því ósanngjarnt að við greiðum fyrir tvo.

Við fögnum því að fá afslætti og jafnvel frítt inn sums staðar en það er ekki rétta leiðin að úthúða einhverjum sem ekki gefur afslátt, sem er þeirra réttur.

Um leið og öryrkjum er tryggð mannsæmandi framfærsla þá get ég tekið undir með seinni aðilanum að við eigum ekki að fá frítt frekar en aðrir. Staðreyndirnar eru aðrar og því erum við þakklát þeim sem aðstoða okkur með afslætti.

Við viljum ekki forréttindi heldur jafnrétti. Hitt er svo annað mál að vegna þess að við gerum ekki nóg til að koma öryrkjum í virkni og þar með á vinnumarkaðinn þá erum við öll að tapa miklum verðmætum. Nú er ég 100% öryrki en vegna hjálpartækja og aðstoðar sem ég nýt þá tek ég þátt í samfélaginu, eins og ég get vegna hindrana sem flestar eru manngerðar, og borga skatt af þeim tekjum sem ég afla mér. Því eru góðar líkur á að sá sem talaði niður til öryrkja sé mögulega á mínu framfæri. Kannski er hann í fæðingarorlofi eða fær vaxtabætur sem allt er gerlegt vegna þess að ég, öryrkinn, borga skatta af launum mínum eins og aðrir heiðarlegir borgarar þessa lands. Bið ég viðkomandi að njóta vel.

Við þurfum á öllum að halda í uppbyggingu Íslands. Við skulum bera virðingu hvert fyrir öðru og vinna saman að því að virkja alla til þátttöku og þar á meðal þau auðævi sem eru fólgin í okkar verst settu einstaklingum.

Við erum nefnilega öll frábær. Bara mismunandi.




Skoðun

Sjá meira


×