Lífið

Illt ráðabrugg smákrimma

Emile Hirsch og Matthew McConaughey í hlutverkum sínum sem smákrimminn Chris Smith og leigumorðinginn Killer Joe Cooper.
Emile Hirsch og Matthew McConaughey í hlutverkum sínum sem smákrimminn Chris Smith og leigumorðinginn Killer Joe Cooper.
Killer Joe var frumsýnd í kvikmyndahúsum í gær. Myndin skartar Matthew McConaughey í aðalhlutverki og er frá leikstjóra The Exorcist.

Spennumyndin Killer Joe skartar Emile Hirsch, Matthew McConaughey og Juno Temple í aðalhlutverkum og segir frá Chris Smith sem ræður leigumorðingja til að myrða móður sína svo hann komist yfir líftryggingu hennar.

Chris skuldar glæpamanninum Digger Soames háar fjárhæðir og sér ekki fram á að geta greitt skuldir sínar. Hann ákveður því að ráða lögreglumanninn og leigumorðingjann Killer Joe Cooper til að myrða móður sína svo hann komist yfir líftryggingu hennar. Chris hefur þó ekki heldur efni á að greiða Killer Joe fyrirframgreiðsluna sem Joe setur sem skilyrði og verða þeir ásáttir um að Joe taki Dottie, systur Chris, í gíslingu sem eins konar tryggingu fyrir að upphæðin verði greidd að verkinu loknu. Með Joe og Dottie tekst þó undarleg vinátta og verður lögreglumaðurinn eins konar draumaprins fyrir Dottie. Á meðan virðist ráðabrugg Chris þó ætla úr böndunum verði ekki tímanlega í taumana gripið.

Leikstjóri myndarinnar er William Friedkin sem er líklega þekktastur fyrir kvikmyndirnar The French Connection, The Exorcist og Rules Of Engagement. Hann vann handrit myndarinnar í samstarfi við leikskáldið Tracy Letts, en myndin er byggð á samnefndu leikriti Letts frá árinu 1993. Þeir höfðu áður unnið saman við gerð hrollvekjunnar Bug sem kom út 2009 og er byggð á samnefndu leikverki Letts. Killer Joe hefur fengið ágæta dóma og voru 75 prósent ritaðra ummæla á vefsíðunni Rottentomatoes.com góð.

Matthew McConaughey þykir standa sig vel sem ógeðfelldur sadisti með herramannslegt yfirbragð og vilja sumir meina að þetta sé besti leikur hans til þessa. Aðrir gagnrýnendur segja söguþráðinn missa marks og að persónurnar séu lítið annað en lákúrulegar og að myndin sé í besta falli dramatískari og lengri útgáfa af sjónvarpsþættinum The Jerry Springer Show.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.