Lífið

Bandaríkjamenn taka fram úr Íslendingum á Airwaves

Miðasala á Iceland Airwaves tónlistarhátíðina hefur gengið vel. Íslendingar eru í fyrsta sinn ekki fjölmennastir á hátíðinni.f
Miðasala á Iceland Airwaves tónlistarhátíðina hefur gengið vel. Íslendingar eru í fyrsta sinn ekki fjölmennastir á hátíðinni.f réttablaðið/valli
Miðasala fyrir tónlistarhátíðina Iceland Airwaves hófst í desember í fyrra og að sögn Gríms Atlasonar, framkvæmdastjóra hátíðarinnar, er líklegt að Bandaríkjamenn verði fjölmennastir á hátíðinni.

Árlega sækja um sjö þúsund manns hátíðina og af þeim fimm þúsund miðum sem fara í almenna sölu eru nú um sex hundruð eftir og hafa Bandaríkjamenn keypt um fjórðung seldra miða. Hingað til hafa Íslendingar verið fjölmennasta þjóðin á hátíðinni en við erum nú í öðru sæti á eftir Bandaríkjamönnum.

„Íslendingar eru gjarnir á að bíða fram á síðustu stundu með að kaupa miða og enda því oft á að kaupa miða á uppsprengdu verði á svörtum markaði, sem er ekki góður „bissness“ að mínu mati. Við verðleggjum miðana í þremur þrepum; ef þú kaupir miðann snemma færðu hann á 12.500 krónur, svo hækkar hann upp í 14.500 og núna kostar hann 16.500 krónur, sem mér þykir ansi hófstillt miðað við það magn af sveitum sem kemur fram,“ útskýrir Grímur sem reiknar með að uppselt verði á hátíðina um miðjan ágúst.

Tónlistarhátíðin fer fram dagana 31. október til 4. nóvember, tveimur vikum seinna en fyrri ár því að fjöldi ferðamanna á landinu var orðinn svo mikill í október að erfitt var að fá flug og gistingu fyrir tónlistarfólk Airwaves.

„Þegar hátíðin byrjaði árið 1999 komu fáir ferðamenn til Íslands í október. Síðan þá hefur ásókn til landsins aukist og nú er október orðinn hluti af háannatímanum. Það mætti segja að við værum orðin fórnarlömb eigin velgengni því við áttum orðið erfitt með að fá flug fyrir tónlistarfólkið okkar.“

sara@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.