Lífið

Ein kvöldstund með Ronan í boði

Ronan Keating og Páll Óskar eru meðal þeirra sem fram koma á sunnudagskvöldinu á Þjóðhátíð í Eyjum.
Ronan Keating og Páll Óskar eru meðal þeirra sem fram koma á sunnudagskvöldinu á Þjóðhátíð í Eyjum.
„Það hefur alltaf verið ódýrara að koma á sunnudeginum en núna fengum við Herjólf í samstarf með okkur og settum í fyrsta skipti upp næturferðir aftur í land aðfaranótt mánudagsins," segir Tryggvi Már Sæmundsson meðlimur í skipulagningarnefnd Þjóðhátíðar í Vestmannaeyjum.

Sunnudagskvöldið hefur hingað til verið það fjölmennasta á hátíðinni og búast Tryggvi og hans menn ekki við neinni breytingu þar á núna. „Þetta verður í fyrsta skipti sem við erum með erlenda stórstjörnu á sviði en það er búið að vera í umræðunni í marga áratugi," segir hann og á þar við Boyzone-söngvarann Ronan Keating sem stígur einmitt á svið á sunnudagskvöldinu. Ingó Veðurguð, Páll Óskar og Botnleðja koma einnig fram það kvöldið, auk þess sem brekkusöngurinn verður á sínum stað, svo búast má við þrususkemmtun.

„Fólk hefur oft ákveðið í skyndi að skella sér yfir á sunnudeginum en lendir svo jafnvel í því að komast ekki til baka fyrr en á þriðjudeginum. Þessar nýju næturferðir leysa það vandamál vonandi," segir Tryggvi en tvær ferðir verða í boði, klukkan tvö og fjögur.

Aðspurður hvort innflutningur á stórstjörnunni borgi sig fyrir hátíðina segir Tryggvi ómögulegt að svara því fyrr en eftir að henni ljúki. Salan yfir til Eyja hefur þó verið mikil í ár sem endranær, en enn eru til miðar. „Þetta er að fyllast smám saman. Ronan er án efa að laða að, enda stórstjarna sem hefur selt á þriðja tug milljón platna. Við reiknuðum þetta lauslega saman og fundum út að það væru um 70 plötur á hvern Íslending," segir Tryggvi hlæjandi.- trs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.