Erlent

Íbúar forða sér frá Aleppo af ótta við meiri átök

Íbúar í Aleppo taka eigur sínar og yfirgefa borgina áður en verstu bardagarnir hefjast.
Íbúar í Aleppo taka eigur sínar og yfirgefa borgina áður en verstu bardagarnir hefjast. nordicphotos/AFP
Manaf Tlass, þekktasti liðhlaupinn úr æðsta hring Assads Sýrlandsforseta, segist vilja leggja sitt af mörkum til að sameina lið uppreisnarmanna, sem samsett er af ólíkum og oft á tíðum andstæðum fylkingum.

Leiðtogar fylkinganna hittust á fundi í Katar í gær með það fyrir augum að koma sér saman um myndun bráðabirgðastjórnar, sem tæki við völdum ef Bashar al Assad forseti hrökklaðist frá völdum.

Tlass var náinn samstarfsmaður Assads en segist hafa hlaupist á brott þegar honum varð ljóst að ekki yrði hægt að sannfæra Assad um að hætta miskunnarlausum hernaði gegn almenningi og uppreisnarmönnum.

Harðir bardagar hafa verið í Aleppo, næststærstu borg landsins, og er búist við enn harðari bardögum á næstu dögum þegar stjórnarherinn hefur stórsókn sína. Bæði stjórnarherinn og uppreisnarmenn hafa verið að styrkja lið sitt fyrir átökin, en íbúar borgarinnar flýja af ótta við átökin.

Alls hafa átökin í Sýrlandi kostað nærri 20 þúsund manns lífið frá því þau hófust snemma á síðasta ári. Undanfarnar vikur hafa um hundrað manns látið lífið á degi hverjum.

Samtökin Læknar án landamæra telja að um 120 þúsund manns hafi flúið land, flestir til nágrannalandanna Tyrklands, Líbanon og Jórdaníu. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×