Erlent

Aðeins beitt gegn útlendingum

Sýrlenskir uppreisnarmenn
Staða þeirra virðist hafa styrkst mjög síðustu daga.
nordicphotos/AFP
Sýrlenskir uppreisnarmenn Staða þeirra virðist hafa styrkst mjög síðustu daga. nordicphotos/AFP
Sýrlandsstjórn segir að efnavopn, sem hún hefur í fórum sínum, yrðu eingöngu notuð gegn innrásarliði. Þeim yrði aldrei beitt gegn eigin landsmönnum.

„Öll þessi vopn eru geymd undir eftirliti og í beinni umsjón sýrlenska hersins og verða aldrei notuð nema Sýrland verði fyrir árás að utan,“ sagði Jihad Makdissi, talsmaður utanríkisráðuneytis Sýrlands.

„Engin efna- eða lífefnavopn verða nokkurn tímann notuð, og ég endurtek, verða aldrei notuð, í átökunum í Sýrlandi, hvernig sem þau þróast,“ sagði hann.

Þetta er í fyrsta sinn sem Sýrlandsstjórn viðurkennir að vera með efnavopn, en undanfarna daga hefur vaxandi þrýstingur verið á stjórnina frá leiðtogum annarra landa, sem eru farnir að krefjast þess að hún segi af sér. Talið er að stjórnvöld hafi í fórum sínum sinnepsgas og efni sem hafa áhrif á taugastarfsemi.

Arababandalagið hefur boðið Bashar al Assad Sýrlandsforseta og fjölskyldu hans örugga útleið ef hann kýs að segja af sér. Assad er giftur og á þrjú ung börn. „Þessi ósk kemur frá öllum arabaríkjunum: Dragðu þig í hlé,“ sagði Hamid bin Jassim al Thani, forsætisráðherra Katars, eftir fund utanríkisráðherra ríkja Arababandalagsins.

Talsmaður Hvíta hússins sagði í gær að notkun á þessari tegund vopna væri óásættanleg. „Sýrlenska stjórnin hefur skyldur gagnvart heiminum, og fyrst og fremst gagnvart eigin borgurum,“ sagði Victoria Nuland. Hún sagði einnig að Bandaríkjastjórn og bandamenn hennar fylgdust með ástandinu og hefðu komið þeim skilaboðum til bæði stjórnvalda og uppreisnarmanna að forðast notkun óhefðbundinna vopna.

Harðir bardagar hafa geisað síðustu daga milli uppreisnarmanna og stjórnarhersins í Aleppo og Damaskus, tveimur stærstu borgum landsins. - gb/- þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×