Erlent

Vandi Spánar illviðráðanlegur

Enn á ný mótmæla Spánverjar sparnaðaraðgerðum stjórnvalda, sem framlengja samdráttarskeiðið.
Enn á ný mótmæla Spánverjar sparnaðaraðgerðum stjórnvalda, sem framlengja samdráttarskeiðið. nordicphotos/AFP
Slæmar fréttir af efnahagslífi Spánar síðustu daga þykja hafa aukið mjög líkurnar á því að stjórn landsins þurfi að leita á náðir björgunarsjóðs evruríkjanna. Mikill titringur var á verðbréfamörkuðum í Evrópu vegna ástandsins og gengi evrunnar lækkaði.

Seðlabanki Spánar sagði samdrátt á öðrum ársfjórðungi hafa numið 0,4 prósentum og stjórn landsins spáir því nú að samdráttarskeiðinu ljúki ekki fyrr en 2014. Stjórnin hefur þegar beðið um aðstoð við banka landsins úr neyðarsjóði ESB upp á 100 milljónir evra. Nú bætist hins vegar við vandi héraða landsins, sem hafa beðið ríkisstjórnina um fjárhagsaðstoð.

Lántökukostnaður hefur einnig hækkað á Ítalíu. Bæði spænsk og ítölsk stjórnvöld gripu í gær til þess ráðs að banna skortsölu tímabundið til að koma í veg fyrir frekara verðfall á verðbréfamörkuðum.

Fjárhagsvandi Grikkja er einnig kominn aftur í kastljósið, því óvíst er um niðurstöður erfiðra samningaviðræðna grísku stjórnarinnar við Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn nú í vikunni.

Evrópskir stjórnmálamenn hafa verið með yfirlýsingar um að Grikkir hafi ekki staðið við þau sparnaðaráform, sem þeir lofuðu í skiptum fyrir fjárhagsaðstoð frá AGB og ESB. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×