Erlent

Rússar ásaka Vesturlönd

Bifreið friðargæsluliða Sameinuðu þjóðanna á vettvangi sjálfsvígsárásarinnar í gær.
Bifreið friðargæsluliða Sameinuðu þjóðanna á vettvangi sjálfsvígsárásarinnar í gær. Fréttablaðið/AP
Rússnesk stjórnvöld ásökuðu í gær Vesturlönd fyrir að kynda undir uppreisn og átökum í Sýrlandi, sama dag og sjálfsvígsárás í höfuðborginni Damaskus kostaði nokkra nánustu samstarfsmenn Bashar al Assads forseta lífið.

„Í staðinn fyrir að róa niður uppreisnarmennina, þá eru sumir samherja okkar að hvetja þá áfram," sagði Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, og vísaði til leiðtoga á Vesturlöndum sem nú þrýsta á Rússa og Kínverja að samþykkja refsiaðgerðir gegn Sýrlandi í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Meðal þeirra sem féllu í árásinni voru varnarmálaráðherrann Daúd Radsjeha og aðstoðarráðherra hans, Assef Shavkat, en sá er mágur Assads forseta. Einnig féll Hassan Turkmani, fyrrverandi varnarmálaráðherra. Meðal særðra er Mohammed Shaar innanríkisráðherra. Sýrlenskir uppreisnarmenn hafa lýst yfir ábyrgð sinni á árásinni.

Rússar hafa verið andvígir því að beita Sýrlandsstjórn þrýstingi vegna átakanna, sem kostað hafa á annan tug þúsunda lífið frá því mótmæli og síðar vopnuð uppreisn hófst gegn Assad forseta á síðasta ári. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kom saman í gær til að reyna að ná samkomulagi um frekari þrýsting á Assad.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×