Lífið

Vinnur með stórlaxi í bandarísku sjónvarpi

Það er alltaf nóg að gera hjá Birni Thors, sem heldur til Parísar í næstu viku til að ljúka upptökum á þáttaröðinni Transporters.
Það er alltaf nóg að gera hjá Birni Thors, sem heldur til Parísar í næstu viku til að ljúka upptökum á þáttaröðinni Transporters. Fréttablaðið/ernir
„Það er rosalega skemmtilegt að taka þátt í þessu, þetta er eins og að fara í sumarbúðir í vinnunni sinni,“ segir Björn , sem leikur í fyrsta þættinum í nýrri amerískri þáttaröð, Transporters.

Þættirnir eru byggðir á bíómyndinni Transporters sem kom út árið 2003. Þetta er fyrsta þáttaröðin sem gerð er og verður hún frumsýnd í september. „Ég var í tökum í Toronto í síðustu viku og á einum tökudegi tók ég þátt í tveimur bílaeltingaleikjum, tveimur skotbardögum og bílveltu. Það er ótrúlega gaman að fá að taka þátt í svona alvöru hasar,“ segir Björn og bætir við að þetta sé ekkert mjög ólíkt því að leika í Pressu nema að umfangið sé töluvert meira. „Ég held að kostnaðurinn við hvern þátt sé til dæmis kominn í um fimm milljónir dala,“ segir hann en það samsvarar rúmlega 600 milljónum íslenskra króna.

Björn fer með hlutverk vonda karlsins og kemur aðeins fyrir í þessum eina þætti. „Minn endir í þættinum var mjög dramatískur og það eru ekki miklar líkur á að persónan fái frekara hlutverk í þessari seríu,“ segir Björn og hlær en vill ekkert gefa upp frekar. Hann heldur til Parísar í næstu viku til að klára tökur. Leikstjóri þáttarins sem Björn kemur fram í er Brad Turner, sem hefur leikstýrt þáttum í þáttaröðum á borð við 24, Psych, Homeland, Prison Break og Bones. „Brad er stórlax í bandarísku sjónvarpi. Hann var einn af framleiðendum stuttmyndar okkar Barkar Sigþórssonar, Come to Harm, í fyrra og í kjölfarið af því kom hann mér í prufu fyrir þennan þátt,“ segir Björn.

Haustið verður afar annasamt og spennandi hjá Birni. Hann leikur í þriðju þáttaröðinni af Pressu, sem kemur á skjáinn í haust, auk þess sem hann fer með aðalhlutverkið í bíómyndinni Frost og stórt hlutverk í myndinni Djúpið en báðar verða þær frumsýndar með haustinu. Björn hefur þó ekki mikinn tíma til að horfa á sjálfan sig á skjánum því það er nóg fram undan hjá honum. „Ég fer aftur í Þjóðleikhúsið eftir sumarfrí. Við eigum eftir nokkrar sýningar af Afmælisveislunni og svo taka við æfingar á Macbeth sem verður frumsýnt um jólin. Það er því margt í pípunum fyrir haustið,“ segir Björn Thors brattur. tinnaros@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.